Enski boltinn

„Einbeitum okkur að fimmtu­deginum“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Manchester United hefur aldrei fengið eins mörk á sig síðan Amorim tók við, en má ekki staldra lengi við tapið. 
Manchester United hefur aldrei fengið eins mörk á sig síðan Amorim tók við, en má ekki staldra lengi við tapið.  Robbie Jay Barratt - AMA/Getty Images

Ruben Amorim sá Manchester United fá á sig fjögur mörk í fyrsta sinn síðan hann tók við störfum, í 4-1 tapi gegn Newcastle fyrr í dag. Hann var fljótur að færa fókusinn frá tapinu yfir á fimmtudaginn, þegar Manchester United mætir Lyon í seinni leik Evrópudeildareinvígisins, og segir markmanninn Andre Onana hafa þurft að aftengja sig í dag.

„Það er erfitt að benda á eitthvað eitt sem fór úrskeiðis að svo stöddu, það var sitt lítið af hverju. Það er mjög erfitt að sækja sigur gegn toppliði líkt og Newcastle. Við gerðum mistök, sem er erfitt, en einbeitum okkur að fimmtudeginum. Við verðum að gera það og getum gert svo miklu betur. Ég er ósáttur með leikinn og vil ekki sjá svona mistök á fimmtudaginn“ sagði Amorim á blaðamannafundi eftir leik.

Mistökin sem Amorim talar um leiddu til margra marka hjá Newcastle. Miðjumaðurinn Manuel Ugarte tapaði boltanum á slæmum stað, bakvörðurinn Nasser Mazraoui rann til og tapaði boltanum og miðvörðurinn Leny Yoro átti slaka sendingu.

Amorim var þá spurður hvort honum þætti skiljanlegt að leikmennirnir væru gagnrýndir fyrir sitt framlag og sigurvilja.

„Ég skil það en mér er alveg sama. Það er ekkert verra en að tapa leikjum. Fólk má segja það sem því sýnist. Ég get ekki sagt of mikið því staða okkar í deildinni segir allt sem segja þarf. Hún er slæm en við höldum áfram. Að tapa leikjum er það lang erfiðasta við starfið.“

„Ég útskýrði ákvörðunina fyrir honum“

André Onana var skilinn efir utan hóps í dag. Robin Jones - AFC Bournemouth/AFC Bournemouth via Getty Images

Amorim ákvað að hlífa markmanninum Andre Onana frá því að gera fleiri mistök og hélt honum utan hóps í dag, eftir að hafa átt sök á báðum mörkunum í fyrri leiknum gegn Lyon sem endaði með 2-2 jafntefli.

„Stundum þarftu að þrýsta á leikmenn og stundum þarftu að leyfa þeim að aftengjast… Ég held að [Onana] hafi fundist þetta allt í lagi því ég útskýrði ákvörðunina fyrir honum…“ sagði Amorim einnig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×