Upp­gjörið: Valur - ÍA 6-1| Vals­menn tóku pirringinn út á Skaga­mönnum

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
494749151_29843085368610064_1624884429899493839_n
vísir/diego

Valsmenn byrjuðu leikinn af krafti og komust yfir á 16. mínútu leiksins þegar Birkir Heimisson átti fínan bolta fyrir markið á Lúkas Loga Heimisson sem kláraði færið vel.

Það var kraftur í Valsmönnum í upphafi leiks og þeir voru líklegri til þess að bæta við frekar en ekki á upphafsmínútum.

Skagamenn náðu aðeins að vinna sig inn í leikinn eftir því sem á leið en Valsmenn fengu þó betri færi og fóru með eins marks forskot inn í hálfleikinn.

Seinni hálfleikurinn byrjaði frábærlega fyrir heimamenn sem skoruðu tvö mörk á tveim mínútum.

Patrick Pedersen átti frábæra sendingu í svæði milli bakvarðar og hafsents þar sem Tryggvi Hrafn Haraldsson mætti og var kominn einn í gegn. Tryggvi Hrafn fór nokkuð þægilega framhjá Árna Marinó í marki ÍA og lagði boltann í autt netið.

Valsmenn ýttu upp strax aftur og átti Birkir Heimisson fyrirgjöf fyrir markið þar sem Patrick Pedersen skallaði boltann í netið á fjærstönginni.

Valsmenn bættu svo við fjórða markinu á 58. mínútu og aftur var það Patrick Pedersen að verki en hann hamraði boltann inn rétt fyrir utan teig eftir sendingu frá Birki Heimisson.

Valsmenn voru hvergi nærri hættir og bættu við fimmta markinu á 70. mínútu en þá átti Lúkas Logi Heimisson skot utan af velli sem Árni Marinó í marki ÍA missti undir og í netið.

Fjórum mínútum seinna skoraði Tryggvi Hrafn Haraldsson sitt annað mark eftir sendingu frá Lúkasi Loga og staðan orðin pínleg fyrir gestina.

Á 82. mínútu fékk ÍA vítaspyrnu þegar brotið var á Viktori Jóns innan teigs. Viktor fór sjálfur á punktinn en Frederik Schram varði frá honum vítaspyrnuna. Viktor náði frákastinu og skilaði því í netið. Ekkert meira en sárabótamark fyrir Skagamenn.

Valsmenn fóru með öruggan 6-1 sigur af hólmi.

Atvik leiksins

Seinna mark Lúkasar Loga þegar hann á skot sem Árni Marinó missir undir sig. Það mark súmmerar svolítið upp frammistöðu ÍA í kvöld.

Stjörnur og skúrkar

Patrick Pedersen, Tryggvi Hrafn Haraldsson og Lúkas Logi Heimisson skoruðu allir tvö mörk í kvöld. Birkir Heimisson fann sig vel í bakverðinum í dag líka og lagði upp tvö mörk.

Dómararnir

Twana Khalid Ahmed var á flautinni í kvöld og honum til aðstoðar voru Þórður Arnar Árnason og Sveinn Ingi Sigurjónsson Waage. Fannst teymið komast bara þokkalega vel frá sínu verki í dag.

Stemingin og umgjörð

Það var fínasta mæting í stúkuna í kvöld, búið að kveikja í grillinu svo það var allt til alls. Umgjörðin hér í Hlíðarenda er alltaf upp á tíu!

Viðtöl

Túfa gat leyft sér að fanga í kvöld.Vísir/Anton

„Þarf að hafa þetta hungur og þessa ástríðu“

„Ég fann þetta og sagði við þig fyrir leikinn þegar þú spurðir mig út í byrjunarliðið að mönnum væri ekki alveg sama eftir þann leik og voru svolítið langt niðri en sem betur fer í fóbolta færðu tækifæri mjög stutt seinna að sýna karakter og koma upp eftir að þú ert búin að vera laminn niður eins og við vorum í Kaplakrika“ sagði Tufa í samtali við Gunnlaug Jónsson eftir leikinn í kvöld.

„Það býr mikið í þessum hóp. Við sýndum það í dag og núna er bara að byggja ofan á það sem við gerðum í leiknum í dag“

„Við erum yfirleitt svona á leikdegi með 'activation' og þegar leikir eru svona seint á kvöldin og við mættum hérna klukkan tíu í morgun. Ég kom heim og sagði bara við konuna mína að við ætlum að vinna þetta stórt í kvöld“

„Það sást í augum manna þetta hungur. Það var svona blóð í augunum eins og ég segi þetta á Serbnesku og þá er aldrei spurning hvernig þessir leikir fara. Það býr mikil gæði í hópnum og við vitum það að það þarf að hafa þetta hungur og þessa ástríðu“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira