Tónlist

Enginn fær að skipta sér af tón­list Lauf­eyjar

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Stórstjarnan Laufey Lín ræddi við bandaríska Vogue um feril sinn.
Stórstjarnan Laufey Lín ræddi við bandaríska Vogue um feril sinn. Vísir/Vilhelm

„Eina ástæða þess að tónlistin gekk upp hjá mér er af því ég fór ekki með hana beint til plötuútgefenda,“ segir stórstjarnan Laufey Lín í nýlegu viðtali við tískurisann Vogue. Þar fer hún meðal annars yfir það hvernig velgengni hennar hefur þróast og hvernig hún hefur alltaf fengið að vera hún sjálf. 

Hin 26 ára gamla Laufey Lín er einn frægasti tónlistarmaður sem Ísland hefur alið af sér. Hún selur upp á hverja tónleikana á fætur öðrum víða um heiminn og er með tæplega 7 milljónir fylgjenda á samfélagsmiðlinum Instagram. Þá hlusta 19 milljónir á hana mánaðarlega á streymisveitunni Spotify og eru mörg laga hennar með hundruði milljóna streyma. 

Laufey hefur alltaf verið samkvæm sjálfri sér í tónlistinni og fer einstakar leiðir í lagasmíð sinni þar sem hún takmarkar sig ekki við ákveðna tónlistartegund og leikur sér meðal annars á mörkum popp tónlistar og djassins. 

Í viðtali við Vogue segist hún hafa farið algjörlega rétt að þegar hún var að stíga sín fyrstu skref.  

„Ef þú hefðir spurt hvern sem er í bransanum fyrir fimm eða sex árum hvort ég sem listamaður hefði náð velgengni eða jafnvel bara náð til yngri kynslóða er ég viss um að flestir hefðu neitað,“ segir Laufey við tískurisann og útskýrir að hún hafi því þurft að hugsa út fyrir kassann.

„Eina ástæða þess að tónlistin gekk upp hjá mér er af því ég fór ekki beint til plötuútgefenda og sagði: „Ég er með hugmynd, eigum við að vinna úr henni saman og getið þið fjárfest í mér?“ 

Ég fór algjörlega öfuga leið, ég byggði upp hlustendahópinn minn fyrst. Ég var komin með frekar stóran hóp aðdáanda áður en ég skrifaði undir plötusamning og það gaf mér algjört frelsi í minni sköpun. Enginn hefur nokkurn tíma sagt mér hvernig lag ég eigi að semja eða gefa út því fólk veit að ég þekki mína aðdáendur mjög vel og þau treysta mér.“

Hún segist að sama skapi meðvituð um að þetta sé ekki og hafi sannarlega ekki alltaf verið svona í tónlistarbransanum 

„Listamenn í fortíðinni og þá sérstaklega konur fengu oft ekkert um það ráðið hvað þær sögðu í sinni tónlist. Mér finnst ansi töff að ég geti gert það og ég tek því ekki sem sjálfsögðum hlut.“

Fjöldi fólks hefur skrifað fallegar athugasemdir við Instagram færslu sem Vogue birti af samtalinu við Laufeyju. Meðal þeirra er breska tónlistarkonan Natasha Bedingfield, sem syngur meðal annars stórsmellinn Unwritten. Hún skrifar einfaldlega „Svo töff“ eða so cool og hafa nokkrir svarað henni og beðið um að þær tvær sameini krafta sína. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.