Lífið

Til­kynnti dauða Trés lífsins með brókarmynd

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Sigríður Bylgja Stefánsdóttir hefur hafið atvinnuleit í kjölfar formlegra endaloka Trés lífsins.
Sigríður Bylgja Stefánsdóttir hefur hafið atvinnuleit í kjölfar formlegra endaloka Trés lífsins. Vísir/Egill/Facebook

Sigríður Bylgja Stefánsdóttir, stofnandi bálstofufyrirtækisins Trés lífsins, hefur tilkynnt um endalok þess. Ákvörðunin hafi ekki verið í hennar höndum. Með tilkynningunni birtir hún brókarmynd af sér sem áminningu um að taka sjálfri sér ekki of alvarlega.

Sigríður Bylgja greindi frá fregnunum í færslu á Facebook síðastliðinn þriðjudag.

Tré lífsins varð til árið 2014.

„Elsku vinir.... Það hefur tekið mig langan tíma að setjast niður og skrifa þessi orð nú þegar stór kaflaskil hafa orðið í mínu lífi. Það er mikilvægt að staldra við, taka sér tíma, melta og skoða hlutina frá ólíkum sjónarhornum þegar slíkt ber að garði,“ skrifar hún í færslunni.

Hún segir kaflaskil eðlilegan hluta af lífinu en þessi tilteknu kaflaskil hafi „í sannleika sagt verið frekar erfið“.

„Nú er það orðið alveg ljóst að ekki verður af Tré lífsins, samfélagslega frumkvöðlaverkefninu mínu, sem byrjaði sem lítil hugmynd árið 2014 en hefur aldeilis vaxið og dafnað síðan þá. Þau eru því orðin ansi mörg árin sem ég hef verið á vegferð með Tré lífsins og VÁ hvað hún hefur verið mögnuð og gefandi!“ skrifar Sigríður í færslunni.

„Ákvörðunin var ekki í mínum höndum“

Sigríður segist hafa öðlast ómetanlegan lærdóm, staðið fyrir fjölmörgum áskorunum, unnið marga sigra og kynnst fjölda fólks sem trúði á framtíðarsýn hennar. Hún hafi gert allt sem hún gat en aðrir komið í veg fyrir að verkefnið yrði að veruleika.

„Ég get með sanni sagt að ég gerði mitt allra, allra besta til að gera Tré lífsins að veruleika. Verkefnið var unnið af heilum hug og öllu hjarta, með stuðningi ótal einstaklinga en ákvörðunin var ekki í mínum höndum,“ segir hún.

„Við þessi kaflaskil lít ég því yfir farinn veg með mikið þakklæti í hjarta, með dýpri skilning á ólíkum málum og mannlegum samskiptum, með stærri reynslubanka og fleiri vini og kunningja en ég átti fyrir.“

Hún opnar því nýjan kafla í sínu lífi með „fiðrildi í maganum“ og tilbúin að stökkva á tækifærin sem bjóðast. Myndin með færslunni eigi að vera til marks um það og til minna hana á að taka sig ekki of alvarlega.

„Atvinnuleitin er formlega hafin og þið megið gjarnan hafa mig í huga fyrir spennandi störf þar sem kraftar mínir og reynsla gætu komið að góðum notum,“ skrifar Sigríður að lokum.


Tengdar fréttir

Stefna á skóflustungu að nýrri bálstofu í haust

Forsvarskona og stofnandi Trés lífsins segir að stefnt sé að fyrstu skóflustungu að nýrri bálstofu í haust. Hún vonar að hægt verði að taka bálstofuna í notkun innan tveggja ára.

Bíða eftir ákvörðun dómsmálaráðherra um framtíð bálfara: „Það á ekki að þröngva fólki einhverja eina leið“

Tré lífsins vill byggja nýja bálstofu hér á landi sem er óháð öllum trúar- og lífsskoðunarfélögum en undanfarin 74 ár hafa Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma (KGRP) rekið einu bálstofu landsins. Stofnandi Trés lífsins vonast eftir ákvörðun frá dómsmálaráðherra á næstunni en hún segir mikilvægt að bjóða upp á fleiri valmöguleika við lífslok.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.