Enski boltinn

Ekki með allt þetta fína en ó­trú­lega töl­fræði

Sindri Sverrisson skrifar
Erling Haaland hefur farið hamförum það sem af er leiktíð, eins og reyndar síðustu ár.
Erling Haaland hefur farið hamförum það sem af er leiktíð, eins og reyndar síðustu ár. Getty

Norðmaðurinn Erling Haaland hefur skorað fleiri mörk en helmingurinn af liðunum í ensku úrvalsdeildinni það sem af er leiktíð. Ótrúleg frammistaða hans var til umfjöllunar í Sunnudagsmessunni á Sýn Sport.

Kjartan Atli Kjartansson benti á að Haaland hefði núna skorað 96 mörk í 105 deildarleikjum fyrir Manchester City og myndi án vafa slá met Alans Shearer sem var fljótastur í hundrað mörk, í 124 leikjum. Umræðuna í Messunni má sjá hér að neðan.

Klippa: Messan - Umræða um Haaland

Haaland hefur skorað ellefu mörk og er langmarkahæstur í deildinni, enda með fleiri mörk en tíu liðanna og núna jafnmörg og Brentford og Manchester United.

„Þetta er ótrúleg tölfræði. Líka þegar maður horfir á leikina, stundum snertir hann ekki boltann í dágóðan tíma. Hann er líka aldrei rangstæður. Tímasetningin á hlaupum og sendingu, hvernig hann lætur týna sér og mörkin sem hann skorar. Þetta er bara besti leikmaður í heimi inni í teig,“ sagði Adda Baldursdóttir í Messunni.

Segir City þurfa meira frá hinum

„Hann er ekki endilega með allt þetta fína með sér. Hann er gríðarlega sterkur, kraftmikill og tekur færin sín vel, en það er þetta fótbolta-IQ… Hann fer alltaf á blindu hliðina, sker inn í teiginn á hárréttum tíma, og er með sprengikraft í þessum sköllum,“ sagði Albert Brynjar Ingason en bætti við:

„En City þarf að fara að fá meira frá hinum. Haaland er með ellefu mörk fyrir City í deildinni á þessu tímabili en það er enginn annar kominn með meira en eitt.“

Eftir átta umferðir er City í næstefsta sæti með 16 stig, þremur stigum á eftir toppliði Arsenal en pakkinn er þéttur þar fyrir neðan og er City líka aðeins þremur á undan Manchester United sem er í 9. sæti.

Haaland verður á ferðinni í Meistaradeild Evrópu í kvöld þegar City sækir Villarreal heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×