Lífið

Troðningur á yfirfullri opnun: „Þetta var svo­lítið kreisí“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fólk streymdi að á vinnustofu Ingibjargar á laugardaginn. Eftirspurnin var slík að margir fóru tómhentir heim.
Fólk streymdi að á vinnustofu Ingibjargar á laugardaginn. Eftirspurnin var slík að margir fóru tómhentir heim. Vísir

Svo mikil aðsókn og troðningur var á sýningu í Stykkishólmi á laugardaginn að listakonan ætlar að endurskoða fyrirkomulagið fyrir næstu sýningu. Eftirspurn var mikil og dæmi um að hlutir hafi brotnað í troðningnum. Listakonan segir líklega tilefni til að hækka verðið á verkum sínum.

Ingibjörg H. Ágústsdóttir opnaði fuglasýningu á vinnustofu sinni í Stykkishólmi klukkan 13 á laugardaginn.

„Þetta var svolítið kreisí,“ segir Ingibjörg þegar blaðamaður slær á þráðinn. „Hræðilegt,“ bætir hún við.

Fréttastofu hafði borist ábending um ótrúlega aðsókn, troðning og baráttu um verk til sölu á listasýningunni.

Fuglar á sýningunni.Ingibjörg

„Maður veit náttúrulega aldrei hvað koma margir. Það eina sem ég veit alltaf er að ég er aldrei með nóg fyrir alla,“ segir Ingibjörg.

Hún sé orðin vön mikilli aðsókn á fuglasýningar en þessi hafi verið sérstaklega kaótísk.

„Þegar ég er með fuglasýningar þá er þetta svolítið orðið trendið,“ segir Ingibjörg. Þetta sé í síðasta skipti sem fyrirkomulagið verði með þessum hætti.

Allir mættir til að kaupa

Blaðamaður skoðar Facebook-síðu Ingibjargar þar sem sýningin hefur verið auglýst síðan í lok ágúst. Á síðunni leyfir hún fylgjendum sínum að fylgjast með henni skapa hvert glæsiverkið á fætur öðru. Mikið af fuglum en líka fjallkonum og fleiri munir.

Aðspurð hvort flestir komi á fuglasýningar til að kaupa eða skoða er svarið skýrt:

Ingibjörg

„Það kemur enginn á fuglaopnanir til að skoða,“ segir listamaðurinn sem þekkir aðdáendur sína greinilega nokkuð vel. Hún hafi áttað sig á því löngu áður en dyrnar voru opnaðar klukkan eitt á laugardaginn að fólk var farið að streyma að.

„Það eru margir búnir að bíða lengi og fylgjast með. Mæta svo spenntir, hanga á hurðinni til að reyna að vera fyrstir inn. Svo fá þeir það sem þeir vildu eða ekki neitt.“

Ingibjörg

Það sé ekki þannig að fólk hafi beint verið dónalegt en aðstæðurnar séu óþægilegar.

Ekki hægt að gera öllum til geðs

„Þetta er svona þegar 70-80 manns koma inn í rými sem tekur í mesta lagi 25-30 með góðu móti. Það eru allir að reyna að láta taka frá fyrir sig sömu fuglana,“ segir Ingibjörg.

Ingibjörg

Á Facebook-síðu hennar má sjá beiðnir frá fólki um að taka frá fugla sem Ingibjörg segist ekki geta orðið við. Vandamálið sé eilíflega það sama.

„Það er ekki hægt að gera öllum til geðs.ׅ“

Aðspurð hve margir hafi mætt á opnunina segist hún ekki hafa nokkra hugmynd. Líklega hafi áttatíu manns verið inni þegar mest var en uppsafnaður fjöldi er töluvert meiri. Hún hafi ekki haft möguleika á að telja en á tímabili hafi hún ekki séð neitt annað en fólk.

Ingibjörg

„Vinkona mín var hérna að hjálpa mér en ég held að hvorug okkar hafi verið nógu vel undir þetta búin,“ segir Ingibjörg. Þótt hún viti af áhuga fólks þá renni maður alltaf blint í sjóinn með svona opnanir.

Ingibjörg

„Maður setur viðburð á Facebook og svo mæta miklu, miklu fleiri,“ segir Ingibjörg og líklega megi opnununum við óvissuverð.

Tvíbókanir og misskilningur

Fjölmargir listamenn skera út fugla en fuglar Ingibjargar njóta sérstöðu. Á sýningunni voru alls konar fuglar, um fimmtíu stakir fuglar sem sumir voru seldir í pörum. Hvítar álftir, svartir svanir, himbrimar, nokkrar gæsategundir, tjaldar, uglur, rjúpur og lundar ruku út eins og heitar lummur.

Ingibjörg

Ingibjörg sá sig knúna til að senda út tilkynningu á Facebook-síðu sinni í dag.

„Það mun taka mig nokkra daga að greiða úr misskilningi og tvíbókunum en allt hefst þetta á endanum,“ segir Ingibjörg.

Ingibjörg

„Ég vil hins vegar benda á að allir fuglar eru seldir og ég er ekki að taka pantanir, mun einnig taka mér góðan tíma í að ákveða hvenær, hvort eða hvernig næsta fuglasýning verður.“

Brotnir munir en þó ekki fuglar

Ingibjörg hefur skorið út frá árinu 2010 og er sífellt að bæta við sig fuglum. Hvítu svanirnir hafa notið mikilla vinsælda en það gildir um fleiri vörur.

Ingibjörg

„Það er einhver rómantík í kringum hvítu svanina,“ segir Ingibjörg.

Þótt blaðamaður hafi ekki hagfræðigráðu upp á arminn veltir hann fyrir sér hvort ekki sé tilefni til að hækka verðið á verkunum. Slíkar eru vinsældirnar.

Ekki bara fuglar heldur líka ugla.Ingibjörg

„Það er örugglega framhaldið. Ég ætla að gefa mér góðan tíma í að hugsa framhaldið, hvernig ég geri þetta. Þetta er auðvitað vinnan mín líka svo ég er ekki að kvarta,“ segir Ingibjörg og bætir við að hún hafi líka áhuga á að gera fleiri verk en fugla.

Ingibjörg er búsett í Hólminum þar sem vinnustofan hennar er í kjallara gamla verslunarhúss Tang & Riis í Stykkishólmi. Sýningin mun standa til 2. nóvember og er opið milli 13 og 16. Þar er hægt að dást að fuglunum sem eru þó allir seldir.

Hún þakkar fyrir að enginn hafi slasast í kraðakinu.

„Það brotnaði eitthvað í troðningnum en ekki fuglarnir þannig að þeir sluppu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.