Enski boltinn

„Menn beita öllum brögðum“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsenal-maðurinn Myles Lewis-Skelly tekur innkast í leik með liðinu.
Arsenal-maðurinn Myles Lewis-Skelly tekur innkast í leik með liðinu. Getty/Charlotte Wilson

Arsenal er á toppi ensku úrvalsdeildarinnar en mikið hefur verið rætt og skrifað um föstu leikatriðin hjá liðinu á þessu tímabili. Sunderland notaði sérstaka leið til að hafa áhrif á innköst Arsenal í jafntefli liðanna um síðustu helgi.

Messan ræddi þetta útspil Sunderland en nýliðarnir náðu þarna í stig á móti besta liði deildarinnar.

„Erum við að fara að sjá lið gera þetta eins og Sunderland. Færa auglýsingaskiltin til að trufla löngu innköstin. Erum við að fara að sjá fleiri lið gera þetta,“ spurði Kjartan Atli Kjartansson, umsjónarmaður Messunnar.

„Arsenal er ekkert sterkasta liðið í deildinni í þessu en eru bara virkilega öflugir í öllum föstum leikatriðum. Jú, jú, menn beita öllum brögðum en ég hefði haldið að þetta myndi bitna meira á Sunderland-liðinu heldur en Arsenal,“ sagði Albert Brynjar Ingason, sérfræðingur Messunnar.

„Þetta er aftur aðbúnaður í leik eins og að vökva völl og svo framvegis. Ég hef haldið að það væru einhverjar reglur um þetta,“ sagði Bjarni Guðjónsson, sérfræðingur Messunnar.

„Ég man ekki eftir því þegar Tony Pulis kom og tók við Stoke í fyrsta skipti. Það fyrsta sem hann gerði var að segja inn með línurnar. Völlurinn varð því eins grannur og hægt væri að hafa, ekki eins breiður. Hann tók hann og minnkaði hann um tvo eða þrjá metra hvoru megin. Þá sáust gömlu línurnar en það var ekki bara fyrir einn leik. Það var bara Pulis-tíminn. Þröngt,“ sagði Bjarni.

Það má finna umfjöllun þeirra um þetta hér fyrir neðan.

Klippa: Sunnudagsmessan: Arsenal og innköst



Fleiri fréttir

Sjá meira


×