Enski boltinn

Fyrrum United-maður sakaður um að hrækja á stuðnings­menn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hannibal Mejbri í leiknum umrædda með Burnley á móti Leeds.
Hannibal Mejbri í leiknum umrædda með Burnley á móti Leeds. Getty/Alex Livesey/

Hannibal Mejbri, leikmaður enska úrvalsdeildarliðsins Burnley, er til rannsóknar fyrir óíþróttamannslega framkomu eftir ásakanir um að hann hafi hrækt í átt að stuðningsmönnum Leeds í leik liðanna í október síðastliðnum.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá enska knattspyrnusambandinu sem breska ríkisútvarpið segir frá.

Atvikið á að hafa átt sér stað í kringum 67. mínútu þegar Mejbri var að hita upp meðfram hliðarlínunni í leik Burnley og Leeds í ensku úrvalsdeildinni.

Mejbri var skipt inn á í leikinn sextán mínútum síðar.

„Því er haldið fram að leikmaðurinn hafi hagað sér í andstöðu við reglur leiksins og/eða á óviðeigandi hátt og/eða sýnt af sér móðgandi og/eða ósiðlega hegðun með því að hrækja á eða í átt að stuðningsmönnum Leeds,“ segir í yfirlýsingunni.

Mejbri hefur ekki tjáð sig um ásakanirnar. Hinn 22 ára gamli leikmaður hefur frest til föstudagsins 28. nóvember til að svara knattspyrnusambandinu.

Burnley vann umræddan leik 2-0. Mejbri gekk til liðs við Burnley frá Manchester United árið 2024.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×