Pulisic kom inn af bekknum og bjargaði Milan

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Christian Pulisic skoraði tvö mörk gegn Torino.
Christian Pulisic skoraði tvö mörk gegn Torino. getty/Claudio Villa

AC Milan endurheimti toppsæti ítölsku úrvalsdeildarinnar með 2-3 endurkomusigri á Torino á útivelli í kvöld. Christian Pulisic var hetja Milan.

Ekki blés byrlega fyrir Milan framan af leik í kvöld en eftir sautján mínútur leiddi Torino, 2-0. Nikola Vlasic (víti) og Duván Zapata skoruðu mörk heimamanna.

Adrien Rabiot minnkaði muninn í 2-1 á 24. mínútu og kom Milan aftur inn í leikinn.

Pulisic kom inn á sem varamaður á 66. mínútu og aðeins mínútu síðar jafnaði hann metin, 2-2.

Bandaríkjamaðurinn var ekki hættur og á 77. mínútu skoraði hann sigurmark gestanna frá Mílanó, 2-3.

Milan, sem hefur unnið þrjá leiki í röð, er með 31 stig á toppi ítölsku deildarinnar, líkt og Napoli. Inter er svo með þrjátíu stig í 3. sætinu.

Mikael Egill Ellertsson kom ekkert við sögu þegar Genoa vann sinn annan leik í röð þegar liðið lagði Udinese að velli, 1-2. Genoa er í 14. sæti deildarinnar með fjórtán stig. Þrjú önnur lið, Cagliari, Parma og Torino, eru einnig með fjórtán stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira