Menning

Ráð­herra tekur sjálfur við­töl

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þorleifur Örn, Finnur og Bjarni Thor eru metnir hæfir til að gegna hlutverkinu.
Þorleifur Örn, Finnur og Bjarni Thor eru metnir hæfir til að gegna hlutverkinu. Vísir

Jóhann Páll Jóhannsson settur menningarráðherra þegar kemur að ráðningu nýs óperustjóra hefur boðað þrjá umsækjendur í viðtal. Þrír hafa verið metnir hæfir til að gegna stöðunni en til stóð að skipa í stöðuna fyrir 15. nóvember síðastliðinn.

Sú flækja kom upp við meðferð umsókna að meðal umsækjenda sem metnir voru hæfir var Finnur Bjarnason. Finnur var í nóvember fyrir tveimur árum ráðinn verkefnisstjóri hjá menningarráðuneytinu vegna stofnunar þjóðaróperu. Hann hefur því unnið náið innan ráðuneytis Loga Einarssonar sem taldi sig ekki hæfan til að taka ákvörðun um ráðninguna.

Sérstök hæfnisnefnd tók viðtöl við umsækjendur og skilaði skýrslu til ráðuneytisins er varðaði hæfi umsækjenda. Samkvæmt heimildum Vísis voru Finnur Bjarnason og Bjarni Thor Kristinsson metnir mjög hæfir af nefndinni en Þorleifur Örn metinn hæfur.

Samkvæmt heimildum fréttastofu stendur til að ráðherra ræði við umsækjendurna þrjá fyrir jólin. Vegna þess hve fáir vinnudagar eru yfir hátíðarnar má telja líklegt að nýr óperustjóri verði ekki ráðinn fyrr en á nýju ári.

Óperustjóri mun heyra undir Þjóðleikhússtjóra í skipuriti, eiga við hann samráð um gerð fjárhagsáætlana og mikilvægar ákvarðanir er varðar rekstur hennar. Þá hefur Þjóðleikhúsráð eftirlit með starfsemi hennar og rekstri.

Magnús Geir Þórðarson Þjóðleikhússtjóri er meðal þeirra fimm sem manna hæfnisnefndina. Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir er formaður nefndarinnar en auk þeirra sátu í nefndinni, Halldór Guðmundsson bókmenntafræðingur, Kristinn Sigmundsson óperusöngvari og Þóra Einarsdóttir óperusöngvari.

Þóra átti einnig sæti í undirbúningsnefnd um stofnun Þjóðaróperu sem vann að stofnun Þjóðaróperunnar með Finni Bjarnasyni, verkefnastjóra í ráðuneytinu.

Hlutverk nýstofnaðrar óperu verður að sviðsetja óperuverk, sinna sögulegri arfleifð óperulista og glæða áhuga landsmanna á listforminu. Samkvæmt frumvarpi um stofnun þjóðaróperu verða þar tólf einsöngvarar í fullu starfi og sextán manna kór í hálfu starfi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.