Enski boltinn

Rétt­lætti Zirkzee-skiptinguna: „Stundum sækirðu betur með færri fram­herja“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ruben Amorim var vonsvikinn með frammistöðu Manchester United gegn Wolves.
Ruben Amorim var vonsvikinn með frammistöðu Manchester United gegn Wolves. getty/Ash Donelon

Ruben Amorim sagði að Manchester United hefði verið í vandræðum allan tímann gegn botnliði Wolves á Old Trafford í kvöld.

Leikurinn endaði með 1-1 jafntefli og Úlfarnir fengu því aðeins sitt þriðja stig í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu. Þeir hafa enn ekki unnið leik, gert þrjú jafntefli og tapað sextán. Gestirnir voru þó nær sigrinum í leik kvöldsins en heimamenn.

„Við vorum í vandræðum allan leikinn. Sköpunarmáttinn vantaði en við vissum að þetta yrði öðruvísi leikur en gegn Newcastle. Það var önnur orka í leiknum. Þegar maður horfir yfir leikinn fengum við okkar færi en flæðið í sókninni var ekki til staðar. Það vantar upp á tengingarnar í augnablikinu,“ sagði Amorim en marga leikmenn vantar í lið United um þessar mundir.

Klippa: Viðtal við Amorim

„Þetta var allt annar leikur en sá síðasti. Það voru fleiri leikmenn fyrir aftan boltann og þegar staðan er sú þarftu að hafa meira fyrir því að skapa, hafa hugmyndaflug og spila leikinn á annan hátt. Það vantaði í dag. Þeir reyndu en við spiluðum ekki vel. Þegar þú spilar ekki vel með boltann áttu í vandræðum án hans.“

Joshua Zirkzee skoraði mark United en var tekinn af velli í hálfleik. Amorim útskýrði af hverju hann tók þá ákvörðun.

„Við hlupum um og reyndum að ná stjórn á boltanum. Við áttum í vandræðum með miðjumennina þeirra og stundum sækirðu betur með færri framherja. Við vorum með þrjá framherja og stundum er það ekki það besta fyrir sóknarleikinn,“ sagði Amorim.

„Þessi leikur er að baki. Þú getur ekki breytt úrslitum hans en getur haldið áfram og einbeitt þér að næsta leik.“

United hefði getað komist upp í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með sigri en er í því sjötta með þrjátíu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×