Enski boltinn

Chelsea búið að reka Enzo Maresca

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Enzo Maresca, knattspyrnustóri Chelsea, hefur stýrt sínum síðasta leik.
Enzo Maresca, knattspyrnustóri Chelsea, hefur stýrt sínum síðasta leik. Getty/Michael Regan

Knattspyrnufélagið Chelsea og Enzo Maresca aðalþjálfari hafa komist að samkomulagi um starfslok en þetta kemur fram á miðlum félagsins.

Chelsea situr í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Þessi 45 ára Ítali fer frá félaginu innan við sex mánuðum eftir að hafa unnið heimsmeistaramót félagsliða í lok fyrsta tímabils síns á Stamford Bridge.

Chelsea-menn hafa aðeins unnið einn af síðustu sjö deildarleikjum sínum og fengu aðeins sex stig úr sex leikjum í desember, sem varð til þess að þeir eru nú fimmtán stigum á eftir toppliði Arsenal.

En úrslitin eru aðeins lítill hluti af sögunni. Maresca kom jafnvel eigin starfsliði á óvart þegar hann, eftir 2-0 sigur á Everton, sem var eini sigur Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í desember, sagði að „margir“ hefðu gert þetta að „verstu 48 klukkustundunum“ sínum síðan hann gekk til liðs við félagið.

Það hefur mikið gengið á bak við tjöldin og enskir fjölmiðlar hafa ýjað að þessu síðustu daga.

Hér fyrir neðan má sjá tilkynninguna frá Chelsea sem var stutt og hnitmiðuð.

„Á tíma sínum hjá félaginu leiddi Enzo liðið til sigurs í Sambandsdeild Evrópu og á heimsmeistaramóti félagsliða. Þeir sigrar munu áfram vera mikilvægur hluti af nýlegri sögu félagsins og við þökkum honum fyrir framlag sitt til félagsins,“ segir í fréttinni.

„Þar sem enn er keppt að mikilvægum markmiðum í fjórum keppnum, þar á meðal að tryggja sæti í Meistaradeild Evrópu, telja Enzo og félagið að breyting gefi liðinu besta tækifærið til að koma tímabilinu aftur á réttan kjöl,“ segir í fréttinni og hún endar á:

„Við óskum Enzo alls hins besta í framtíðinni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×