Lífið

Steinunn Ó­lína í „friðarinnlögn“ með kæró

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Steinunn Ólína og Gunnar í góðum fíling í friðarinnlögninni.
Steinunn Ólína og Gunnar í góðum fíling í friðarinnlögninni.

Leikkonan Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir virðist ástfangin upp fyrir haus af kærasta sínum, framkvæmdastjóranum Gunnari K. Gylfasyni, og birti mynd af parinu að kúra upp í rúmi í „friðarinnlögn“ í anda John Lennon og Yoko Ono.

Við myndina sem Steinunn birti á Facebook í hádeginu skrifar hún „Bed-in for Peace ☮️ ❤️ Kveðjur úr friðarinnlögn!“ auk nokkurra friðarmyllumerkja. 

Ekki er ljóst hvort parið er beinlínis í eiginlegri innlögn, þá einhvers konar hvíldarinnlögn. Aftur á móti vísar hugtakið „bed-in for peace“ greinilega í gjörning hjónanna Johns Lennon og Yoko Ono sem vorið og sumarið 1969 dvöldu tvívegis vikulangt uppi í rúmi hótelherbergja til að mótmæla Víetnam-stríðinu. 

Hjónin voru í viku uppi i rúmi á Hilton-hótelinu í Amsterdam frá 25. til 31. mars og svo aftur í viku frá 26. maí til 1. júní á Queen Elizabeth-hótelinu í Montreal. Hugtakið „bed-in“ er dregið af „sit-in“ sem felst í því að mótmælendur sitja við eða fyrir framan opinberan stað þar til þeir eru reknir í burt, handteknir eða kröfum þeirra mætt.

John og Yoko eða Halli og Laddi

Myndin hefur vakið mikla athygli og fjöldi fólks skrifað ummæli við hana. „Lennon og Yoko,“ skrifaði Vigfús Bjarni Albertsson við myndina og kveikti greinilega á vísuninni. En þá svaraði Steinunn: „Halli og Laddi eða Bing & Gröndahl.“

„John Lennon og Yoko Ono? Make love, not war. Ekki leiðum að líkjast,“ skrifaði bókmenntafræðingurinn Helga Kress í öðrum ummælum.

John og Yoko á Hilton-hótelinu í Amsterdam.

„Friðarinnlögn er dásamlegt orð,“ skrifaði Ásthildur Kjartansdóttir við færsluna og svaraði Steinunn þá: „Ég er að skipuleggja slíkar ferðir! Læt þig vita!“

Fjallað var um samband þeirra Steinunnar og Gunnars síðasta vor en þau höfðu þá verið að slá sér upp um nokkurra mánuða bil. Steinunn hafði þá áður verið gestur Ásu Ninnu Pétursdóttur á Bylgjunni ásamt Halldóru Geirharðs á aðfangadag 2024 þar sem hún sagðist hafa „náð sér í jólakærasta“.  

Sjá einnig: Ástin blómstrar hjá Steinunni

Gunnar er viðskipta- og hagfræðimenntaður, hefur verið í eigin rekstri um árabil og var á lista hjá Vinum Kópavogs í síðustu sveitastjórnarkosningum. Steinunni Ólínu þarf vart að kynna, hefur leikið í sjónvarpi, kvikmyndum og á sviði á löngum ferli og bauð sig fram til forseta í síðustu forsetakosningum.

Færslu Steinunnar má sjá í heild sinni hér að neðan:






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.