Menning

Vorblót í Vesturbænum

Síðustu tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands á þessu starfsári verða í Háskólabíói í kvöld. Vladimir Ashkenazy stjórnar hljómsveitinni, sem ætlar að flytja þrjú verk eftir Igor Stravinskí - Pulcinellu, Eldfuglinn og Vorblót. Öll þessi þrjú verk Stravinskís eru samin sem balletttónlist, en Vorblótið er þeirra frægast, og ekki bara fyrir þær hrikalegu móttökur sem það fékk við frumflutninginn í París hinn 29. maí árið 1913, þegar áheyrendur trylltust bókstaflega af bræði og kalla þurfti á lögregluna til að rýma salinn. Vorblótið var vægast sagt byltingarkennt verk á þeim tíma, þar sem áheyrendur áttu hvorki að venjast jafn ómstríðum tónum og brjálæðislegum hrynjanda, þótt slíkt þyki afar hversdagslegt nú á tímum. Æ síðan hefur þetta verk átt miklum vinsældum að fagna. Samhliða æfingum hefur Ashkenazy unnið að upptökum fyrir nýjan geisladisk með Sinfóníuhljómsveitinni fyrir japanska fyrirtækið Octavia, sem hefur áður gefið út í Japan tvo diska með flutningi hljómsveitarinnar undir stjórn Ashkenazys. Tónleikarnir hefjast klukkan 19.30. Klukkutíma fyrir tónleikanna efnir Vinafélag Sinfóníuhljómsveitar Íslands til samverustundar í Sunnusal Hótel Sögu, þar sem Árni Heimir Ingólfsson kynnir efni tónleikanna og kemur með hljóðdæmi.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.