Menning

Ástarbréf Bronte komin heim

Ástarbréf sem Charlotte Bronte skrifaði samkennara sínum hefur verið skilað aftur til heimilis rithöfundarins í Yorkshire. Bronte skrifaði bréfin árið 1844 þegar hún þjáðist af þunglyndi vegna ástar sinnar á belgíska kennaranum Constantin Heger. Hún sendi honum bréfin en hann reif þau og henti í ruslafötuna. Tortryggin eiginkona hans límdi bréfin saman og sonur þeirra arfleiddi síðan British Museum að þeim. Heimili Charlotte Bronte er orðið að safni og þar geta gestir nú séð þessi hjartnæmu bréf. Bronte var um tíma kennari við skóla í Belgíu og þar kenndi hún ásamt Heger og eiginkonu hans. Hann uppgötvaði rithöfundarhæfileika hennar meðan hún dvaldi í Brussel og hvatti hana mjög. Hún misskildi áhuga hans og taldi hann vera ástfanginn af sér. Samband þeirra varð uppistaða í skáldsögu hennar Villette þar sem ensk kona verður ástfangin af belgískum kennara. Bronte er þekktust fyrir skáldsögu sína Jane Eyre. Hún lést 38 ára gömul og Heger lést fjörtíu og einu ári síðar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.