Menning

Ólgandi menning í Hafnarfirði

"Á Björtum dögum í ár eru um sextíu viðburðir, og það eru bæði viðburðir sem við höfum fóstrað og ýtt úr vör en líka er mjög mikið um listamenn sem hafa komið til okkar og viljað vera með," segir Marín Hrafnsdóttir, menningar- og ferðamálafulltrúi Hafnarfjarðar. Bjartir dagar eru lista- og menningarhátíð Hafnarfjarðar. Hátíðin hefst í dag, stendur í hálfa aðra viku með fjölbreytilegum menningarviðburðum á hverjum einasta degi og lýkur á Jónsmessukvöldi með heljarmikilli útiskemmtun í Hellisgerði. "Eins og í fyrra leggjum við sérstaka áherslu á að vera með menningu fyrir ungt fólk. Gamla bókasafnið kemur þar inn af miklum krafti með fjölmarga tónleika þar sem heyrast allar tegundir af tónlist, bæði popp, rokk, raf, metal, djass og klassík. Síðan stendur Gamla bókasafnið líka fyrir útitónleikum 22. júní." Setning Bjartra daga verður í dag klukkan tvö fyrir framan bókasafnið, það er að segja nýja safnið sem er á Strandgötu 1. Að setningu lokinni verða opnaðar sjö sýningar af ýmsum toga víða um bæinn. Þar á meðal má nefna sýningu í gamla Gúttó, Góðtemplarafélagshúsinu gamla, þar sem Góðtemplarareglan í Hafnarfirði ætlar meðal annars að setja upp stúkufund eins og þeir tíðkuðust hér áður fyrr. "Einnig verður í dag frumsýnd í Bæjarbíói ný íslensk kvikmynd sem heitir Konunglegt bros og er eftir Gunnar B. Guðmundsson. Hann er sá sami og gerði Karamellukvikmyndina og er mikil menningarsprauta hér í Hafnarfirði." Myndin fjallar um fjöltæknilistamanninn Friðrik Friðriksson, en fjöltæknilist hans felst í því að láta konur verða ástfangnar af sér. "Allir leikskólarnir í bænum taka líka þátt í hátíðinni með því að skreyta stofnun eða fyrirtæki með verkum sínum. Hverjum leikskóla hefur verið úthlutað einu fyrirtæki eða stofnun til að skreyta, og það verður mjög skrautlegt að fara um bæinn." Í kvöld verður svo öllum boðið á tónleika í Hafnarborg þar sem karlakórinn Þrestir og Kvennakór Hafnarfjarðar taka sig saman og leyfa öllum að syngja með. Dagskrá Bjartra daga er birt í heild sinni á vef Hafnarfjarðar, sem er hafnarfjordur.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×