Menning

Torfbæir og stemningsmyndir

"Við höfum verið í tvö ár að undirbúa þessa opnun," segir María Karen Sigurðardóttir, forstöðumaður Ljósmyndasafns Reykjavíkur, en myndavefur safnsins hefur verið opnaður. Á vefnum má nú finna um 3000 ljósmyndir en að sögn Maríu mun þeim fjölga verulega á næstu mánuðum og stefnan er sett á 10.000 myndir í árslok. "Það er metnaður okkar að auka þjónustuna við almenning og bregðast við kröfum nútímans." Á vefnum má nú finna myndir eftir þrjá ljósmyndara, þá Tempest Anderson, Magnús Ólafsson, Gunnar Rúnar Ólafsson og Andrés Kolbeinsson. "Í eigu safnsins eru um 40 myndasöfn og myndirnar eru á aðra milljón," segir María og bætir því við að almenningi er boðið að festa kaup á myndum sem eru í eigu safnsins. "Þetta er mjög ódýr en jafnframt falleg og skemmtileg myndlist. Myndirnar á vefnum eru frá lokum 19. aldar fram til 1960 og eru fjölbreytilegar. Sem dæmi má nefna mynd tekna árið 1890 af börnum við torfbæi í Þingholtunum og stemningsmynd frá Austurstræti upp úr 1960." María segir Ljósmyndasafnið gegna margvíslegu hlutverki ásamt því að varðveita ljósmyndaeign Reykjavíkurborgar og halda utan um myndasöfnin. Safnið heldur þrjár sýningar árlega og leggur mikið upp úr þjónustu við almenning. "Sýningin sem við erum með núna er á finnskum samtímaljósmyndum en það er í tengslum við Listahátíð. Í haust opnar sýningin "Fyrir og eftir" en á henni verður borin saman ljósmyndatækni fyrr á tímum og nú. Áður fyrr var málað ofan í ljósmyndir til að fegra fólkið en nú notum við einfaldlega photoshop. Á sýningunni verður þetta borðið saman en tilhneigingin er alltaf að fegra," segir María. Ótrúleg breyting hefur orðið á starfsemi safnsins eftir að það flutti úr Borgartúninu í Grófarhúsið í Tryggvagötu. "Nú erum við í sama húsi og tvö önnur söfn ásamt því að vera í návist við Listasafn Reykjavíkur," segir María og bætir því við að fjöldi gesta hafi margfaldast, farið úr þúsund gestum á ári í tíu þúsund. Ljósmyndavefurinn verður opnaður í dag og er slóðin ljosmyndasafnreykjavikur.is.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×