Menning

Litlir púkar í skóginum

Leikaraparið Jón Ingi Hákonarson og Laufey Brá Jónsdóttir standa fyrir þremur leiklistarnámskeiðum fyrir börn á aldrinum 5-12 ára í sumar. "Við verðum með þema úr Dýrunum í Hálsaskógi á fyrsta námskeiðinu sem hefst á mánudaginn. Þá æfum við senur og syngjum saman lög úr leikritinu með krökkunum," segir Jón Ingi en hann og Laufey Brá, kona hans, eru ekki að vinna saman í fyrsta sinn því þau léku bæði í barnaleikritinu Hversdagslegt kraftaverk eftir Évgení Schwarz sem sýnt var hjá Leikfélagi Akureyrar fyrir tveimur árum. Laufey Brá leikstýrði líka söngleiknum Chicago hjá Menntaskólanum á Akureyri og þá var Jón Ingi aðstoðarleikstjóri sýningarinnar. "Við Laufey höfum unnið mikið að leiklist með börnum og unglingum, aðallega í sitt hvoru lagi. Það hefur gefist okkur báðum vel og við hlökkum til að fá að vinna saman með þessum hætti." Hvert leiklistarnámskeið stendur yfir í þrjár vikur í senn. "Við verðum í Hafnarfirði og ætlum að láta krakkana sýna afrakstur vinnu sinnar í Hellisgerði. Næsta námskeið hefst um leið og því fyrsta lýkur en þá ætlum við að leika okkur með Ronju Ræningjadóttur. Á síðasta námskeiðinu vinnum við svo með Hróa hött en þessi þrjú leikrit eiga það öll sameiginlegt að gerast úti í skógi og því má segja að Hellisgerði verði undirlagt af litlum skógarpúkum í allt sumar."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.