Menning

Eiginkonan syngur

Átta manna djasshljómsveit með Eyjólf Þorleifsson saxófónleikara í fararbroddi ætlar að halda tónleika í Hafnarborg, Hafnarfirði, nú í kvöld.  Með hljómsveitinni syngur djasssöngkonan Hildur Guðný Þórhallsdóttir, sem reyndar er eiginkona hljómsveitarstjórans. Sú staðreynd kemur samt ekki í veg fyrir að Eyjólfur kalli hana óhikað "eina af okkar bestu djasssöngkonum í dag." Aðrir meðlimir eru Tómas R. Einarsson á kontrabassa, Matthías Hemstock á trommur, Ómar Guðjónsson á gítar, Ívar Guðmundsson á trompet, Ólafur Jónsson á saxófón og fleiri blásturshljóðfæri, og svo Árni Scheving á víbrafón. "Hann er flottur, sá gamli," segir Eyjólfur um Árna, sem er einn af reyndustu djassleikurum landsins. "Hér á landi eru fáir víbrafónleikarar, en jafnvel þótt þeir væru fleiri þá myndi sé samt fá Árna til að spila með mér. Ég hef haldið upp á hann lengi, alveg frá því ég var að elta hann á milli staða í gamla daga." Eyjólfur hefur einnig fengið til liðs við sig Braga Valdimar Skúlason til þess að gera texta við nokkur laga sinna. Bragi er einn hinna óborganlegu Baggalúta, þannig að hugsanlega má búast við einhverju óvæntu úr þeirri áttinni. Á efnisskránni er frumsamin tónlist eftir Eyjólf, sem hefur spilað með ýmsum hljómsveitum, þar á meðal málmblástursrokksveitinni Jagúar. "Ég hef verið að semja tónlist frá blautu barnsbeini," segir Eyjólfur. "Á þessum tónleikum verður þó upp undir helmingurinn efni sem ekki hefur heyrst áður." Stefnan er að taka þessi lög upp og gefa þau út á disk áður en langt líður.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.