Menning

Trölli stelur jólunum í Borgar­leik­húsinu

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Taylor Momsen og Jim Carrey í kvikmyndinni Þegar trölli stal jólunum árið 2000.
Taylor Momsen og Jim Carrey í kvikmyndinni Þegar trölli stal jólunum árið 2000. Getty

Borgarleikhúsið hefur tryggt sér sýningarrétt á söngleiknum Þegar Trölli stal jólunum, sem byggir á sígildu ævintýri Dr. Seuss. Söngleikurinn verður frumsýndur á stóra sviðinu í nóvember, Valur Freyr Einarsson leikstýrir honum og verður hulunni svipt af leikhópnum á næstunni.

Þegar Trölli stal jólunum kom upprunalega út sem barnabók í bundnu máli eftir Dr. Seuss árið 1957 og naut strax mikilla vinsælda. Sagan segir frá hinum einmana Trölla sem þolir ekki jólin en í næsta nágrenni halda menn þau hátíðleg með mat og drykk, söng og gjöfum. Eitt árið fær Trölli nóg og ákveður að stela jólunum og öllu sem þeim viðkemur.

Sagan hefur verið aðlöguð að skjánum margs sinnis en þekktasta aðlögunin er kvikmyndin How the Grinch stole Christmas (2000) í leikstjórn Ron Howard með stórstjörnunni Jim Carrey í hlutverki Trölla.

Íslendingar þekkja söguna vel, kvikmyndin hefur fyrir löngu orðið hluti af jólunum á mörgum heimilum og bókin var þýdd á íslensku af Þorsteini Valdimarssyni árið 1974 og var svo endurútgefin árið 2024. Hérlendis þekkti þó enginn söguna jafnvel og Stefán Karl Stefánsson heitinn sem fór með hlutverk Trölla í söngleiknum á leikferð um Bandaríkin á árunum 2008 til 2015.

„Það er ekkert sem kemur fólki í meira jólaskap en að koma í leikhúsið yfir hátíðarnar og sjá dásamlega fjölskyldu-jólasýningu. Þegar Trölli stal jólunum er geggjað jólaævintýri sem allir þekkja og ég get ekki beðið eftir næstu jólum,“ segir Egill Heiðar Anton Pálsson, Borgarleikhússtjóri.

Jim Carrey var ansi góður Trölli.

Egill segir jafnframt að jólaundirbúningurinn sé þegar hafinn í Borgarleikhúsinu þótt það sé nærri ár til jóla. Leikstjórn söngleiksins verður í höndum Vals Freys Einarssonar og verðu hulunni svipt af leikhópnum á næstu vikum. Stór barnahópur verður einnig með í sýningunni og verða haldnar leikprufur fyrir börn í vor.

Þegar Trölli stal jólunum verður frumsýndur á stóra sviði Borgarleikhússins í nóvember 2026 og verður það Evrópufrumsýning á söngleiknum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.