Menning

Skýin eru skemmtileg

"Ég er rosalega hrifinn af því hvað skýin eru skemmtileg á Íslandi. Þau breytast svo hratt og eru miklu skemmtilegri hér en í Edinborg," segir Andri Hafliðason, sem í dag opnar sýningu á ljósmyndum og kvikmyndum að Þingholtsstræti 27. Andri er sonur Hafliða Hallgrímssonar tónskálds og hefur alist upp í Edinborg alveg frá fæðingu. Hann kom hingað til lands nokkrum sem barn með fjölskyldu sinni, en þá jafnan til Akureyrar. "Ég þekkti mjög lítið til í Reykjavík áður en ég kom. Ég vissi ekki einu sinni hvar Laugavegurinn var." Andri er að læra arkitektúr í Edinborg, en hefur dvalist hér á landi síðan í janúar, bæði til þess að starfa á arkitektastofu í tengslum við námið, en ekki síður til þess að taka ljósmyndir og kvikmyndir. Hann keypti sér fyrir stuttu vandaða stafræna myndavél, sem hann hefur haft með sér á ferðum sínum um bæinn. Með henni getur hann tekið bæði ljósmyndir og kvikmyndir. "Ég er bara með hana í pokanum og tek hana upp í strætó eða þegar ég er gangandi. Ég bý í Garðabæ og á leiðinni í vinnu sé ég oft eitthvað skemmtilegt sem mig langar til að taka myndir af." Með myndum sínum reynir hann að fanga andrúmsloftið og notar einnig tónlist og ýmis hljóð til þess að ná betur fram stemmningunni í hverri mynd. Hann segist hafa ákveðið að koma til Íslands ekki síst til þess að skilja betur hvað felst í því að vera íslenskur. Ennfremur vonast hann til þess að myndirnar endurspegli sýn hans á landið. Sýningin verður opnuð í dag klukkan 17 og verður þá boðið upp á léttar veitingar. "Síðan ætla ég að hafa opið fram á kvöld eins lengi og fólk er á staðnum." Svo verður sýningin opnuð aftur klukkan tíu í fyrramálið og verður opin eitthvað fram yfir kvöldmat, en þá eru líka síðustu forvöð að sjá hana. Sýninguna nefnir Andri "One Day", sem vísar bæði til þess að sýningin stendur aðeins í einn dag og einnig að dag nokkurn gæti svo farið að hann komi aftur til Íslands til lengri dvalar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.