Tíska og hönnun

Þægileg föt sem passa

"Mér finnst bara langbest að vera í mjög þægilegum fötum sem passa," segir Þórey Edda Elísdóttir stangarstökkvari. "Ég á einar þröngar, léttar og venjulegar æfingabuxur sem ég er mjög oft í og eru svona í uppáhaldi. Svo á ég flottar Diesel gallabuxur sem mér finnst gott að vera í. Ég á líka flísbuxur frá 66 gráðum norður sem ég nota mikið," segir Þórey sem er mikið fyrir svona venjuleg, heimilisleg föt sem hún getur bæði æft í og notað hversdagslega.

"Mér finnst voða þægilegt að skella mér bara í gallabuxur ef ég er að fara eitthvað. Svo ef ég er að fara að skemmta mér þá get ég alltaf keypt mér einhvern sætan bol við," segir Þórey sem finnst þó alls ekkert leiðinlegt að punta sig. "Þegar ég fer eitthvað fínt þá klæði ég mig aðeins upp og mér finnst gaman að hafa mig til. Þegar ég var í skóla fannst mér til dæmis mjög gaman að hafa mig til og klæða mig aðeins fínna en vanalega," segir Þórey sem er nú búsett í Þýskalandi og mun taka tvo áfanga í skóla í fjarnámi í gegnum Internetið. "Ég get þá verið í íþróttabuxunum í skólanum - heima í stofu," segir Þórey og hlær.

"Vinnan mín núna býður ekki uppá mikil fatakaup. Ef ég kaupi einhver föt þá þarf ég ekki mikið að nota þau," segir Þórey en hún vinnur við það að æfa stangarstökk. "Ég æfi ellefu sinnum í viku og er því í íþróttagallanum frá því ég vakna og þangað til ég fer að sofa," segir Þórey en hún setti nýtt Íslandsmet og Norðurlandamet á dögunum. Þar bætti Þórey sinn eigin árangur um níu sentimetra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.