Menning

Uppáhaldsstaður Gísla Óskarssonar

"Uppáhaldið mitt er óbyggðirnar á Íslandi eins og þær leggja sig og það er vegna þess að þá er ég laus við kerfið. Þá er ég kominn út fyrir hníf og gaffal," segir Gísli Óskarsson, kennari og fréttamaður í Vestmannaeyjum. Hann kveðst yfirleitt ferðast einn um óbyggðirnar og liggja úti, annað hvort á jörðinni eða í bílnum, og helst ekki koma nálægt vinsælum ferðamannastöðum nema þegar hann er með fjölskyldunni. Annað heillar Gísla líka. Það eru úteyjar Vestmannaeyja. "Þar er engin klukka eða annað sem truflar, maður er laus við útvarp og sjónvarp og er bara hluti af náttúrunni. Það líkar mér ákaflega vel." Gísli kveðst hafa gert mikið af því að rannsaka lundann og kvikmynda hátterni hans. Þá er það þolinmæðin sem gildir því lundinn er svo ofurviðkvæmur. "Holan er heimili hans," segir Gísli alvarlegur. "Ef maður truflar ungfugl að vori þegar hann er búinn að verpa þá yfirgefur hann eggið og viðbúið er að hann komi ekki aftur að holunni fyrr en í september, til að sópa út. En ef hann er búinn að koma upp einum unga og annar er settur í fóstur þá hættir hann ekki fyrr en hann er búinn að koma honum upp líka og jafnvel þeim þriðja. Þetta er ég búinn að prófa. Það er ótrúlegt að fylgjast með tilfinningalífi þessara fugla. Það er þetta sérstaka líf sem ég sækist eftir. Þess vegna fer ég út í óbyggðirnar."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×