Menning

Pabbastrákur fer til Þýskalands

Leikritið Pabbastrákur eftir Hávar Sigurjónsson er á leið á leiklistarhátíð í Wiesbaden í Þýskalandi en á hátíðinni verða kynnt á þriðja tug nýrra evrópskra leikrita. Hátíðin er sú stærsta sinnar tegundar í Evrópu og verður íslenska verkið sýnt þann 27. júní í Þýskalandi. Forsvarsmaður hátíðarinnar, leikhússtjórinn dr. Manfred Beilharz, kom í vetur til Íslands og kynnti sér ný íslensk leikrit og var Pabbastrákur sú sýning sem vakti áhuga hans. Í kjölfarið var Þjóðleikhúsinu boðið að senda sýninguna á hátíðina. Hátíðin í Wiesbaden ber yfirskriftina Ný leikrit frá Evrópu - Leiklistartvíæringurinn í Wiesbaden og er haldin af Ríkisleikhúsinu þar í borg í samvinnu við Borgarleikhúsið í Frankfurt. Hátíðin er ein sú mikilvægasta sinnar tegundar í heiminum og ferðast listrænir stjórnendur hennar, Tankred Dorst, Ursula Ehler og Manfred Beilharz, víðs vegar um Evrópu í leit að áhugaverðum leikritum í spennandi uppsetningum. Mörg þeirra leikrita sem kynnt hafa verið á hátíðinni í gegnum tíðina hafa í kjölfarið verið sett upp í leikhúsum víða um heim. Pabbastrákur var sýnt á litla sviði Þjóðleikhússins í vetur og var meðal annars tilnefnt til Grímunnar nú á dögunum. Leikstjóri sýningarinnar er Hilmar Jónsson en aðalleikarar eru þau Ívar Örn Sverrisson, Valdimar Örn Flygenring, Atli Rafn Sigurðarson og Guðrún S. Gísladóttir. Finnur Arnar Arnarsson sér um búningana ásamt Margréti Sigurðardóttur en tónlistin er samin af Jóhanni Jóhannssyni.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×