Innlent

Styður vilja stjórnarandstöðunnar

Meginniðurstaða skýrslunnar styður þá eindregnu skoðun stjórnarandstöðunnar að stjórnarskráin heimili ekki að sett verði lög um þjóðaratkvæðagreiðslu með girðingum eða þröskuldum," segir Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar. "Þó svo að nefndin lýsi þeirri skoðun sinni að það væri hugsanlega æskilegt að setja lög með vægum skilyrðum, eins og hún nefnir það sjálf, þrítekur hún það fram í skýrslunni að á því leiki ríkur stjórnskipulegur vafi að það sé unnt," segir Össur. Hann segir að um það efni vísi nefndin einkum til 26. greinar stjórnarskrárinnar. "Það er svo athugavert að nefnd ríkisstjórnarinnar vísar því alfarið á bug að það samrýmist stjórnarskránni að setja lög um 75% þátttöku eða aukinn meirihluta. Ég undirstrika að það sem að nefndin telur að það leiki djúpur lögfræðilegur vafi á því að það sé heimilt að setja girðingalög án þess að brjóta stjórnarskránna þá ber okkur að láta stjórnarskrána njóta vafans. Þess vegna finnst mér að niðurstöður nefndarinnar gefi fullt tilefni til að stjórnarandstaðan og ríkisstjórnin kanni hvort ekki sé nú kominn upp flötur á því að sameinast um lög sem einmitt byggja á þessari niðurstöðu nefndarinnar og geri ekki ráð fyrir neinu öðru en einföldum meirihluta þeirra sem taka þátt."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×