Maðurinn sem lést hét Sigurður Kristófer McQuillan Óskarsson en hann var formaður björgunarsveitarinnar Kyndils í Mosfellsbæ og var 36 ára.
Lögreglu barst tilkynning um að maður hefði fallið í Tungufljót rétt fyrir klukkan fjögur í gær en þrír björgunarsveitarmenn höfðu þá verið að æfa straumvatnsbjörgun á svæðinu.
Mikill viðbúnaður var vegna slyssins og voru björgunarsveitir boðaðar frá nálægum svæðum og höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu voru aðstæður á vettvangi krefjandi. Töluverð rigning og mikið vatnsmagn í ánni. Þá var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út. Vegna veðurs var ekki hægt að lenda þyrlunni við slysstaðinn.
Strax voru hafnar endurlífgunartilraunir á vettvangi sem báru ekki árangur.
„Ég vil byrja á því að votta aðstandendum Sigga mínar dýpstu samúðarkveðjur og hugur okkar allra í félaginu er hjá þeim. Þarna voru félagar björgunarsveita við æfingar við straumvatnsbjörgun og hvað gerðist er ekki á hreinu en það er í höndum lögreglunnar að fara með rannsókn þess máls.“
Áin þar sem æfingin fór fram í gær er eitt af helstu æfingasvæðunum björgunarsveitanna þegar kemur að straumvatnsbjörgun.
„Hún hefur verið notuð í töluverðan tíma og þarna hafa verið æfingar og þetta voru vanir straumvatnsbjörgunarsveitarmenn sem voru þarna á ferð.“
Borghildur segir að verkefnið nú sé að taka utan um félagana en í kvöld og á morgun verða samverustundir fyrir björgunarsveitarfólk. Þegar rannsókn lögreglu á slysinu liggi fyrir verði farið ítarlega yfir það innan félagsins.
„Það var augljóslega eitthvað sem fór úrskeiðis og þetta var hræðilegt slys. Þegar það kemur meira í ljós hvað það var sem gerðist þá skoðum við að sjálfsögðu alla okkar verkferla allt ef eitthvað er þar sem að hefði mátt betur fara.“