Innlent

93% ætla að kjósa um fjölmiðlalög

93% landsmanna telja líklegt að þeir taki þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlalögin, samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallups. RÚV skýrði frá þessu í gær. Rúmlega sex af hverjum tíu sögðust ætla að greiða atkvæði gegn fjölmiðlalögunum en þrír af hverjum tíu sögðust munu greiða atkvæði með þeim. Þá kannaði Gallup afstöðu fólks til fjölmiðlalaganna út frá stjórnmálaflokkum. Tveir þriðju sjálfstæðismanna og rúmur þriðjungur framsóknarmanna segjast munu samþykkja lögin. Tæpur fjórðungur sjálfstæðismanna og rúmur helmingur framsóknarmanna ætla að synja lögunum. Samkvæmt niðurstöðum Gallum mun mikill meirihluti kjósenda stjórnarandstöðuflokkanna synja lögunum. Níu af hverjum tíu samfylkingarmanna segjast ætla að greiða atkvæði gegn lögunum og sömuleiðis rúmlega fjórir af hverjum fimm stuðningsmönnum Vinstri grænna. Þá spurði Gallup hvort fólk væri fylgjandi eða andvígt því að setja skilyrði um lágmarksþátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlalögin. Rúmlega fjórir af hverjum tíu eru fylgjandi einhverskonar skilyrðum um lágmarksþátttöku en rúmlega helmingur er því andvígur.  Könnun Gallup um fjölmiðlalögin var gerð dagana 9. til 22. júní, að því er fram kom í RÚV. Úrtakið var 1218 manna tilviljunarúrtak úr þjóðskrá. Þátttakendur voru á aldrinum 18 til 75 ára og var könnunin gerð í gegnum síma. Svarhlutfall var 63% prósent.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×