Menning

Vinsælir á homma- og lesbíuhátíðum

Meðlimir Lorts.
Meðlimir Lorts.
"Lortur er framleiðslufyrirtæki sem sérhæfir sig í myndlist, tónlist og kvikmyndagerð," segir Ragnar Ísleifur Bragason, talsmaður Lorts, en fyrirtækið er um þessar mundir að vinna að glænýrri heimildamynd um tónleikaferðalag hljómsveitarinnar Sigur Rósar sem var farin sumarið 2003 og að heimildamynd um myndlistarmanninn Matthew Barney sem ber heitið Matthew Barney: Site pacific en sú mynd fjallar um sýningu hans í Nýlistasafninu í Reykjavík sem haldin var seinasta sumar.

"Lortur samanstendur af fólki á öllum aldri sem víða hefur komið við, á sem flestum sviðum mannlífs, og stefnir fram á veginn," segir Ragnar ennfremur og kímir. Ragnar segir að Lortur hafi verið starfandi frá árinu 1996 og framleitt á þeim tíma fjölmargar stutt- og heimildamyndir. Myndir Lorts hafa vakið mikla athygli fyrir svartan og óvenjulegan húmor auk þess sem umfjöllunarefnin eru með fjölbreyttasta móti.

Meðal kvikmynda eru Grön: mottan talar sem komst á kvikmyndahátíð í New York fyrr á þessu ári auk þess að vera sýnd á Reykjavík shorts & docs, Konur: Skapavandræði sem var sýnd á homma og lesbíuhátíð í Torínó á Ítalíu og er einnig komin inn á homma og lesbíu-hátíð í Dublin og Barcelona auk kvikmyndahátíðar í Vín. Marokkó: Leitina að heiðarlega arabanum, Georg: Lifandi lag og Hverfisrokk: Fyrir stelpur sem vilja pissa, en sú mynd var tekin upp í kringum Menningarhátíð Grandrokks fyrr á þessu ári.

Ragnar segir að félagið stefni að fjölbreyttri dagskrá í sumar. "Margir félagsmenn eru dreifðir um heiminn á veturna annað hvort við nám eða við listsköpun en á sumrin söfnum við okkur saman og skemmtum okkur og öðrum. Fyrsti viðburðurinn verður í Klink og bank á laugardaginn milli 3 og 7, þegar kastljósinu verður beint að neðanjarðarkvikmyndagerð og tilraunaverkefnum. Myndir eftir Lort og gamlar sígildar myndir verða sýndar sem og brot úr heimildamynd um hljómsveitina Mínus eftir Frosta Runólfsson.

Lortur hefur einnig stofnað hljómsveitina Forhúð forsetans með Davíð Þór Jónsson, Bjarna Massa, Hassa, Hjalta Bola og Kristján Loðmfjörð innanborðs en sú hljómsveit mun fyrst koma fram á tvíæringi sem haldin verður seinna í sumar þar sem Klaus Nilsen, Bjarni Massi, Davíð Örn Hamar, Stefan Feelgood (amerískur misskilningur), Valgarður Bragason og Hulda Vilhjálmsdóttir munu sýna myndlist sína. Auk þeirra mun Kristján Loðmfjörð sýna verkið Álafoss.

Frekari upplýsingar um fyrirtækið og starfsemi þess er að finna á heimasíðu Lorts á slóðinni lortur.org.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×