Þeir vissu hvað þeir voru að gera 2. júlí 2004 00:01 Lýðræði felur í sér að lýðurinn, þjóðin, ráði sínum málefnum sjálf. Frá þjóðinni er allt vald komið og hún á endanlegt úrskurðarvald. Fulltrúalýðræðið var á sínum tíma góður áfangi á leið til lýðræðis, en er langt í frá að vera helgur dómur og takmark í sjálfu sér. Margir hafa orðið til þess að vekja máls á því hin síðari ár, að rafeindatækni nútímans geri kleift að veita almenningi meiri þátt í löggjafarstarfinu og hefur Morgunblaðið gengið þar fram fyrir skjöldu, með þýðingu sinni fyrir nokkrum árum á greinabálki úr breska tímaritinu Economist. Af stjórnmálamönnum hefur Björn Bjarnason helst orðið til að taka drengilega undir þessi sjónarmið. Það skýtur því skökku við, að nú gengur maður undir manns hönd og telur fulltrúalýðræði okkar eitt eiga að vera endanlegt löggjafarvald. Það sé atlaga að þinginu (stundum jafnvel orðað þingræðinu) að setja því einhver valdmörk. Möguleiki forseta til að synja lögum frá alþingi undirskriftar, og þar af leiðandi málskot til þjóðarinnar, hljóti að stafa af einhverri óskiljanlegri slysni, og flaustri við að yfirfæra stjórnarskrá konungsríkisins Íslands í búning, sem hæfði íslensku lýðveldi. Því þurfi nú að setja reglur, sem takmarki úrskurðarvald almennings með kröfu um lágmarksþátttöku atkvæðisbærra manna og/eða aukinn meirihluta kjósenda þeirra sem vilja fella lögin. Það gangi ekki að einfaldur meirihluti kjósenda geti gengið gegn "þingviljanum" (sem allir vita,að í þetta sinn er þó bara vilji eins manns og undanlátssemi annars). Staðreyndin er sú, að stjórnarskrárgjafarnir, þingið veturinn 1944, ræddu þetta ítarlega. Upphafleg tillaga um forsetaembættið gerði ráð fyrir að hann yrði valdalaus og kjörinn af þinginu. Í nefnd varð það ofan á að hann yrði þjóðkjörinn og vald hans aukið á kostnað þingsins. Sjálfstæðismaðurinn Magnús Jónsson (dósent) lýsti viðhorfum þingvaldsmanna ágætlega í ræðu: "Mér kemur því mjög á óvart, hvað margir eru með því að auka vald forsetans. Ég hélt að Alþingi væri á þeirri skoðun, að því bæri að halda því löggjafarvaldi, sem það hefur nú. Það er og hefur alltaf verið á tilfinningu allra, að alþingi hafi eitt löggjafarvaldið. Ég vil að það hafi það áfram. Ég álít þó ekki hægt að komast hjá því að áskilja honum þennan málskotsrétt, þannig að hann geti fellt lög úr gildi, ef hann þykir réttari fulltrúi þjóðarviljans en Alþingi." Aðrir þingmenn voru yfirleitt á þeirri skoðun, að eftir að það varð ofan á, að forseti yrði þjóðkjörinn, þá hefði hann þennan rétt gagnvart þinginu og var um það deilt hvort forseta væri með því fært meira vald en danakonungur hafði áður haft. Utan þings höfðu menn líka skoðun á þessu. Hannibal Valdimarsson skrifaði grein um þetta í blað sitt, Skutul, 18. mars 1944: "Það vakti almennan fögnuð meðal þjóðarinnar, er Alþingi lét undan kröfum hennar og breytti frumvarpi lýðveldisstjórnarskrárinnar í það horf, að forsetinn skyldi í framtíðinni vera þjóðkjörinn en ekki þingkjörinn." Nú sé hins vegar hætta á að forsetinn verði bara "valdalaus toppfígúra". Konungur hafi haft ótakmarkað synjunarvald sem hann að vísu aldrei hafi beitt, en vitneskja um þetta mikilsverða vald þjóðhöfðingjans hafi veitt Alþingi mikið aðhald og leitt til aukinnar varfærni þess í lagasetningu. Í frumvarpi að lýðveldisstjórnarskránni hafi verið gert ráð fyrir frestandi synjunarvaldi forseta þar til þjóðaratkvæðagreiðsla hafi farið fram. Nú hafi Alþingi hins vegar svipt forsetann öllu synjunarvaldi með því að ákveða að "lög frá Alþingi", sem forseti treysti sér ekki til að staðfesta skuli samt verða að lögum. "Þetta er óþolandi með öllu", heldur Hannibal áfram: "Með þessu gerir þingið enn eina tilraun til að sölsa undir sig allt vald þjóðfélagsins úr höndum þjóðarinnar sjálfrar." Vitnað er til þeirra orða Björns Þórðarsonar forsætisráðherra, "að með þessu sé forsetanum ekki ætlað annað hlutverk en að verða eins konar afgreiðslustjóri þingsins, og ríkisráðinu að verða afgreiðslustofnun þess." Það er eina klúðrið við margumrædda 26. grein stjórnarskrárinnar, að "lög frá Alþingi", sem forseti hefur synjað staðfestingar, skuli meðhöndluð eins og bráðabirgðalög, sem framkvæmdavaldið setur á eigin ábyrgð og taka strax gildi og halda því, nema meirihluti Alþingis felli þau. Hitt er alveg ljóst, að þingmenn á þessum tíma gerðu sér fulla grein fyrir því hvað þeir voru að gera með málskotsrétti forseta og ákvæðinu um þjóðaratkvæðagreiðslu. Hefði meirihluti þingsins þá haft sömu hugmyndir og nú eru uppi um heilagleika þingvaldsins, sem ekki skyldi haggað nema með skilyrðum um lágmarksþátttöku kjósenda og með mismunandi atkvæðavægi þeirra eftir því hvort þeir eru með frumvarpinu eða móti, hefðu þeir sett um það sérstök stjórnarskrárákvæði. Fyrst svo er ekki, hlýtur lög, sem sett eru eftir á, af öðrum aðila málsins, að skorta alla lagastoð og alla siðferðisstoð. Hættið að fikta við lýðræðið! Leyfið okkur að ganga til atkvæða eftir þeim sömu kosningalögum og gilda um ykkar eigin kosningu til alþingis! Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Ólafur Hannibalsson Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Lýðræði felur í sér að lýðurinn, þjóðin, ráði sínum málefnum sjálf. Frá þjóðinni er allt vald komið og hún á endanlegt úrskurðarvald. Fulltrúalýðræðið var á sínum tíma góður áfangi á leið til lýðræðis, en er langt í frá að vera helgur dómur og takmark í sjálfu sér. Margir hafa orðið til þess að vekja máls á því hin síðari ár, að rafeindatækni nútímans geri kleift að veita almenningi meiri þátt í löggjafarstarfinu og hefur Morgunblaðið gengið þar fram fyrir skjöldu, með þýðingu sinni fyrir nokkrum árum á greinabálki úr breska tímaritinu Economist. Af stjórnmálamönnum hefur Björn Bjarnason helst orðið til að taka drengilega undir þessi sjónarmið. Það skýtur því skökku við, að nú gengur maður undir manns hönd og telur fulltrúalýðræði okkar eitt eiga að vera endanlegt löggjafarvald. Það sé atlaga að þinginu (stundum jafnvel orðað þingræðinu) að setja því einhver valdmörk. Möguleiki forseta til að synja lögum frá alþingi undirskriftar, og þar af leiðandi málskot til þjóðarinnar, hljóti að stafa af einhverri óskiljanlegri slysni, og flaustri við að yfirfæra stjórnarskrá konungsríkisins Íslands í búning, sem hæfði íslensku lýðveldi. Því þurfi nú að setja reglur, sem takmarki úrskurðarvald almennings með kröfu um lágmarksþátttöku atkvæðisbærra manna og/eða aukinn meirihluta kjósenda þeirra sem vilja fella lögin. Það gangi ekki að einfaldur meirihluti kjósenda geti gengið gegn "þingviljanum" (sem allir vita,að í þetta sinn er þó bara vilji eins manns og undanlátssemi annars). Staðreyndin er sú, að stjórnarskrárgjafarnir, þingið veturinn 1944, ræddu þetta ítarlega. Upphafleg tillaga um forsetaembættið gerði ráð fyrir að hann yrði valdalaus og kjörinn af þinginu. Í nefnd varð það ofan á að hann yrði þjóðkjörinn og vald hans aukið á kostnað þingsins. Sjálfstæðismaðurinn Magnús Jónsson (dósent) lýsti viðhorfum þingvaldsmanna ágætlega í ræðu: "Mér kemur því mjög á óvart, hvað margir eru með því að auka vald forsetans. Ég hélt að Alþingi væri á þeirri skoðun, að því bæri að halda því löggjafarvaldi, sem það hefur nú. Það er og hefur alltaf verið á tilfinningu allra, að alþingi hafi eitt löggjafarvaldið. Ég vil að það hafi það áfram. Ég álít þó ekki hægt að komast hjá því að áskilja honum þennan málskotsrétt, þannig að hann geti fellt lög úr gildi, ef hann þykir réttari fulltrúi þjóðarviljans en Alþingi." Aðrir þingmenn voru yfirleitt á þeirri skoðun, að eftir að það varð ofan á, að forseti yrði þjóðkjörinn, þá hefði hann þennan rétt gagnvart þinginu og var um það deilt hvort forseta væri með því fært meira vald en danakonungur hafði áður haft. Utan þings höfðu menn líka skoðun á þessu. Hannibal Valdimarsson skrifaði grein um þetta í blað sitt, Skutul, 18. mars 1944: "Það vakti almennan fögnuð meðal þjóðarinnar, er Alþingi lét undan kröfum hennar og breytti frumvarpi lýðveldisstjórnarskrárinnar í það horf, að forsetinn skyldi í framtíðinni vera þjóðkjörinn en ekki þingkjörinn." Nú sé hins vegar hætta á að forsetinn verði bara "valdalaus toppfígúra". Konungur hafi haft ótakmarkað synjunarvald sem hann að vísu aldrei hafi beitt, en vitneskja um þetta mikilsverða vald þjóðhöfðingjans hafi veitt Alþingi mikið aðhald og leitt til aukinnar varfærni þess í lagasetningu. Í frumvarpi að lýðveldisstjórnarskránni hafi verið gert ráð fyrir frestandi synjunarvaldi forseta þar til þjóðaratkvæðagreiðsla hafi farið fram. Nú hafi Alþingi hins vegar svipt forsetann öllu synjunarvaldi með því að ákveða að "lög frá Alþingi", sem forseti treysti sér ekki til að staðfesta skuli samt verða að lögum. "Þetta er óþolandi með öllu", heldur Hannibal áfram: "Með þessu gerir þingið enn eina tilraun til að sölsa undir sig allt vald þjóðfélagsins úr höndum þjóðarinnar sjálfrar." Vitnað er til þeirra orða Björns Þórðarsonar forsætisráðherra, "að með þessu sé forsetanum ekki ætlað annað hlutverk en að verða eins konar afgreiðslustjóri þingsins, og ríkisráðinu að verða afgreiðslustofnun þess." Það er eina klúðrið við margumrædda 26. grein stjórnarskrárinnar, að "lög frá Alþingi", sem forseti hefur synjað staðfestingar, skuli meðhöndluð eins og bráðabirgðalög, sem framkvæmdavaldið setur á eigin ábyrgð og taka strax gildi og halda því, nema meirihluti Alþingis felli þau. Hitt er alveg ljóst, að þingmenn á þessum tíma gerðu sér fulla grein fyrir því hvað þeir voru að gera með málskotsrétti forseta og ákvæðinu um þjóðaratkvæðagreiðslu. Hefði meirihluti þingsins þá haft sömu hugmyndir og nú eru uppi um heilagleika þingvaldsins, sem ekki skyldi haggað nema með skilyrðum um lágmarksþátttöku kjósenda og með mismunandi atkvæðavægi þeirra eftir því hvort þeir eru með frumvarpinu eða móti, hefðu þeir sett um það sérstök stjórnarskrárákvæði. Fyrst svo er ekki, hlýtur lög, sem sett eru eftir á, af öðrum aðila málsins, að skorta alla lagastoð og alla siðferðisstoð. Hættið að fikta við lýðræðið! Leyfið okkur að ganga til atkvæða eftir þeim sömu kosningalögum og gilda um ykkar eigin kosningu til alþingis!
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun