Menning

Konur hverfa við hárblástur

"Þetta eru málverk af sex merkiskonum," segir myndlistarkonan Jóhanna Helga Þorkelsdóttir sem á föstudaginn opnaði allsérstaka sýningu í gallerí Klink og Bank. "Konurnar sem ég málaði eiga það sameiginlegt að vera afrekskonur og brautryðjendur á sínu sviði og með málverkunum birtast fróðleiksmolar um þær. Þessar konur þurftu að berjast fyrir tilverurétti sínum en flestar þeirra hurfu af spjöldum sögunnar um áratugaskeið þrátt fyrir afrekin." Konurnar hverfa einnig á sýningu Jóhönnu. "Ég bætti efnum út í málninguna sem gerir það að verkum að litirnir dofna ýmist eða hverfa þegar hiti beinist að þeim. Við hlið myndanna hanga sex hárblásarar sem áhorfendur geta beint að verkunum og þeir verða þá um leið gerendur að hvarfi þessara kvenna." Með þessu vill Jóhanna benda á ábyrgðina sem allir hafa á því að halda á lofti nöfnum merkiskvenna. "Það er mjög auðveldlega hægt að þurrka þessar konur út og blása þeim burt," segir Jóhanna, "...og margar þeirra væru öllum gleymdar ef kvenréttindakonur síðari tíma hefðu ekki grafið þær upp." En þó að áhorfendur geti blásið í burtu málverk Jóhönnu birtast konurnar aftur. "Þetta eru kjarnakonur og styrkur þeirra og meðvitund fólks í samfélaginu hjálpar þeim að birtast aftur, bæði í sögunni og á málverkunum."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×