Lífið

Endurskipulagning á slippsvæðinu

Um þessar mundir er unnið að endurskipulagningu á svokölluðu Mýrargötu- og slippsvæði í Reykjavík og er verkið unnið í samvinnu Reykjavíkurborgar og Reykjavíkurhafnar. Nýja skipulagið er hugsað sem íbúða- og skrifstofusvæði ásamt einhverri hafnarstarfsemi og hefur verið lögð ríkuleg áhersla á samráð við íbúa og hagsmunaaðila á svæðinu. "Það er gaman að segja frá því að við höfum átt gott samstarf við alla sem þarna koma að málinu sem er mjög jákvætt. Þarna eiga að byggjast upp íbúðir og skrifstofur í bland við einhverja hafnarstarfsemi sem verður aðallega smábátaútgerð sem fær að halda sér þarna á svæðinu. Í dag er hafnarstarfsemi ekki mikil þar og er hún helst tengd slippnum en hún mun smám saman leggjast af. Gert er ráð fyrir að Mýrargatan breytist og fari í stokk niður í jörðina og er hugmyndin að eldri götur í Vesturbænum eins og Bræðraborgarstígur, Seljavegur og fleiri götur framlengist niður að höfninni," segir Haraldur Sigurðsson, skipulagsfræðingur hjá Reykjavíkurborg. Verkinu stjórnar stýrihópur sem í sitja fjórir borgarfulltrúar Reykjavíkurborgar og er Steinunn Valdís Óskarsdóttir formaður hópsins. Með stýrihópnum starfa forstöðumenn Skipulags- og byggingarsviðs og Umhverfis- og tæknisviðs Reykjavíkurborgar, hafnarstjóri og skipulagsfulltrúar Reykjavíkurborgar og Reykjavíkurhafnar. Umsjón með verkinu hefur sérstakur ráðgjafahópur sem samanstendur af arkitektafyrirtækjunum VA arkitektum ehf., arkitektastofu Björns Ólafs ásamt Landmótun ehf., landslagsarkitektum og verkfræðistofunni Hönnun hf.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×