Lífið

Ennishvarf 15 við Elliðavatn

Við Ennishvarf 15 við Elliðavatn er verið að byggja fjölbýlishús með alls tíu íbúðum sem eiga að vera tilbúnar í lok ársins. Það er Byggingafélagið Bygging ehf. sem vinnur verkið. "Þetta er að verða fokhelt og er áætlað að húsin verði fullbúin í desember. Þetta eru þrjú hús á tveimur hæðum með alls tíu íbúðum. Stærð þeirra er allt frá 104 fermetrum til 140 fermetra og flestum þeirra fylgir 24 fermetra bílskúr", segir Jón Björnsson einn af eigendum Byggingar ehf. Húsin eru stórglæsileg með flötu þaki og klædd að utan með áli. "Að innan verða íbúðirnar glæsilegar en þær skilast fullfrágengnar án gólfefna en þó verða komnar flísar á bað- og þvottaherbergi. Það verður halogenlýsing í stofunum og einnig verður hiti í baðherbergisgólfunum," segir hann. Íbúðirnar eru til sölu hjá Fasteignasölunni Fasteignamiðlun og hafa tvær þeirra þegar selst. "Mikið af fólki hefur komið til að skoða og virðast margir hafa áhuga. Það er auðvitað ákjósanlegt að búa hérna því útsýnið er mikið og svo er bara Elliðavatnið og umhverfi þess algjör náttúruperla með mikilli trjárækt og gróðri. Þetta er því góður kostur bæði fyrir það hvað húsin eru falleg og staðsetningin frábær," segir Jón.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×