Innlent
Office og Windows á íslensku
Tvö algengustu forrit sem notuð eru á markaðinum, Office og Windows, komu út á íslensku í dag. Íslensku forritin eiga að útrýma þeim ensku á innan við þremur árum. Microsoft kynnti íslensku útgáfu vinnuhugbúnaðarins Office 2003, sem meðal annars inniheldur Word, Excel, Powerpoint og póstkerfið Outlook, og stýrikerfið Windows XP í dag. Elvar Steinn Þorkelsson, framkvæmdastjóri Microsoft á Íslandi, segir rétt ár vera liðið síðan fyrirtækið fór að leiða hugann að verkefninu en þýðingin hafi hafist í desember síðastliðnum. Byrjað hafi verið á Windows en vegna þess hve vel gekk var ákveðið að þýða Office-pakkann einnig. Elvar segir að viðtökur þeirra sem hafi prófað íslenska umhverfið hafi verið afar góðar. Hann segir aðeins nokkrar mínútur að aðlagast íslenska umhverfinu. Heimilin og skólakerfið eru aðalmarkhópurinn í byrjun að sögn Elvars og hann reiknar með að ekki líði á löngu þar til íslenska umhverfið hafi rutt því enska úr rúmi, eða þrjú ár. Þá hafi þeir náð þeirri markaðshlutdeild sem þeir vilji ná með íslensku útgáfunni en bætir við að eitt og hálft ár sé eðlilegur tími.