Búverndarblús 13. ágúst 2004 00:01 Þéttbýlisvæðing Íslands heldur áfram. Í fyrra bjuggu 7% þjóðarinnar í strjálbýli, og er þá átt við samfélög, þar sem búa innan við 200 manns. Fyrir hundrað árum var strjálbýlishlutfallið 77%. Þetta er eðlileg þróun, nema hvað. Fólk hópast saman: það kýs helzt að búa innan um annað fólk. Maður er manns gaman; Hávamál. Samt er þessi þéttbýlisþróun skemmra á veg komin á Íslandi en víðast hvar í löndunum í kringum okkur. Það má ráða m.a. af því, að við landbúnað vinna tvisvar sinnum fleiri á Íslandi en í öðrum iðnríkjum yfirleitt, eða 4% af mannafla hér á móti 2% þar. Þetta stafar af því, að stjórnvöld hafa streitzt gegn fólksfækkun í landbúnaði, af því að þau virðast hafa ruglað henni saman við fólksfækkun í sveitum. Langt fram eftir 19. öldinni var það full vinna fyrir flesta að hafa í sig og á, og ekki lítil fyrirhöfn. Mestur hluti mannaflans var því bundinn við landbúnað. Þegar skilyrði sköpuðust til að færa sig burt frá búskap, gripu bændur - þeir höfðu alla þræði þjóðlífsins í hendi sér - til þess ráðs að binda vinnufólk með lögum við bújarðir þeirra. Þeir þóttust með þessu vera að forða blessuðu fólkinu frá óvissum kjörum við sjósókn, en þeir voru í rauninni að tryggja sjálfum sér ódýrt - nei, ókeypis! - vinnuafl. Þeim dugði skv. lögum að greiða vinnuhjúum hálft kúgildi á ári. Vinnuhjúum var meinað að giftast og eignast börn eftir þeirri kenningu, að landið gæti ekki borið fleira fólk. Fjórðungur mannaflans bjó við þessa kúgun nær alla 19. öld. Gegn þessum órétti þorði Jón Sigurðsson ekki að rísa: hann skrifaði aldrei staf um málið og var þó sískrifandi um alla skapaða hluti. Trúlega vildi hann ekki taka upp önnur mál en þau, sem hann taldi sig geta komið í höfn. Vistarbandið var ekki numið úr lögum fyrr en eftir hans dag, laust fyrir aldamótin 1900. Það eimdi samt eftir af því langt fram eftir 20. öldinni. Búverndarstefnan, sem var tekin upp í kringum 1920 og hefur haldizt við lýði æ síðan, er beint framhald þess ofríkis, sem bændur sýndu öðrum í krafti vistarbandsins á 19. öld. Búverndin leggur þungar byrðar á þjóðina, fátækt fólk ekki sízt, og þá um leið á bændur sjálfa. Skýringin á þessari ófremd landbúnaðarins er einföld. Með auknum markaðsbúskap hefur efnahagslíf landsins tekið stakkaskiptum síðan 1960, en frívæðing hagkerfisins hefur að mestu farið fram hjá landbúnaði: honum var hlíft. Hann er ennþá rekinn eftir hálfsovézkum uppskriftum, sem bera dauðann í sér. Óhagkvæmnina má t.d. ráða af bústærðinni: aðeins 170 býli af tæplega 2400 hafa yfir þúsund fjár, sem þætti sómasamleg bústærð í öðrum löndum. Önnur býli eru minni, sum svo lítil (þriðjungur með innan við 200 fjár), að það er af og frá, að undir þeim geti verið skynsamlegur rekstrargrundvöllur. Nú hefur smábýlum að vísu fækkað verulega síðan 1991 og stórbýlum hefur fjölgað, en eigi að síður eru hagkvæm stórbýli ennþá sjaldgæf undantekning - og eru þau þó engir risar á erlendan mælikvarða, langt frá því. Við þessari óhagkvæmni hefur ekki mátt hrófla áratugum saman, því að þá sögðu menn, að landbúnaður myndi leggjast af. Hvaða landbúnaður? Sauðfjárræktin þarf að dragast saman og hefur gert það af þeirri einföldu ástæðu, að neyzla kindakjöts hefur minnkað um helming s.l. 20 ár. Fólk vill heldur neyta svínakjöts og fuglakjöts: æ fleira fólki finnst það vera betri matur, og þá þurfa bændur að breyta framleiðslu sinni til samræmis við breyttan smekk eins og aðrir. Söðlasmiðir hættu að gera söðla og smíðuðu heldur hnakka, þegar konur byrjuðu að ganga og ríða út í buxum. En þótt samsetning búvöruframleiðslunnar breytist, þá þarf heildarframleiðslan ekki að breytast, því að fæðuþörf fólksins stendur í stað af líffræðilegum ástæðum. Landbúnaður snýst ekki eingöngu um matarframleiðslu, heldur einnig t.d. um hrossarækt til útflutnings, ferðaþjónustu og margt fleira: þessi þróun er hafin, en fjáraustur almannavaldsins í sauðfjárrækt og víðar stendur í vegi fyrir eðlilegum hraða. Blómleg byggð í sveitum útheimtir ekki endilega sama landbúnað og áður, heldur samrýmist hún ágætlega annarri atvinnu af ýmsu tagi - atvinnu, sem miðar að því að fullnægja eftirspurn á markaði. Ýmsir forustumenn Framsóknarflokksins virðast nú gera sér ljósa grein fyrir málinu, að varaformanni flokksins og landbúnaðarráðherra þó undan skildum. Í þessu ljósi er e.t.v. rétt að skoða aðsteðjandi sinnaskipti flokksins í Evrópumálinu, enda myndi innganga Íslands í Evrópusambandið liðka talsvert til í landbúnaði og veita landsfólkinu kost á fjölbreyttari, betri og ódýrari mat, og víni. Eftir situr þá Sjálfstæðisflokkurinn, blýfastur í forneskjunni. Hann er á móti frjálslegri landbúnaðarstefnu, móti Evrópusambandinu, móti frjálsum fjölmiðlum, móti stjórnarskránni, móti Siðanefnd Háskólans: hvað skyldi koma næst? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Þorvaldur Gylfason Mest lesið Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Kjaftæði Elliði Vignisson Skoðun Vitsmunaleg vanstilling í boði ungra Sjálfstæðiskvenna Erna Mist Skoðun Falleinkunn fyrrum forseta Vilhjálmur Þorsteinsson,Viktor Orri Valgarðsson Skoðun Fólk eða fífl? Anna Gunndís Guðmundsdóttir Skoðun Vill íslenska þjóðin halda í einmenninguna? Matthildur Björnsdóttir Skoðun Ólögleg meðvirkni lækna Teitur Ari Theodórsson Skoðun Verklausi milljónakennarinn Þórunn Sveinbjarnardóttir Skoðun Afleiðingar verkfallsaðgerða á minnstu börnin - krafa um svör Jóhanna Dröfn Stefánsdóttir Skoðun
Þéttbýlisvæðing Íslands heldur áfram. Í fyrra bjuggu 7% þjóðarinnar í strjálbýli, og er þá átt við samfélög, þar sem búa innan við 200 manns. Fyrir hundrað árum var strjálbýlishlutfallið 77%. Þetta er eðlileg þróun, nema hvað. Fólk hópast saman: það kýs helzt að búa innan um annað fólk. Maður er manns gaman; Hávamál. Samt er þessi þéttbýlisþróun skemmra á veg komin á Íslandi en víðast hvar í löndunum í kringum okkur. Það má ráða m.a. af því, að við landbúnað vinna tvisvar sinnum fleiri á Íslandi en í öðrum iðnríkjum yfirleitt, eða 4% af mannafla hér á móti 2% þar. Þetta stafar af því, að stjórnvöld hafa streitzt gegn fólksfækkun í landbúnaði, af því að þau virðast hafa ruglað henni saman við fólksfækkun í sveitum. Langt fram eftir 19. öldinni var það full vinna fyrir flesta að hafa í sig og á, og ekki lítil fyrirhöfn. Mestur hluti mannaflans var því bundinn við landbúnað. Þegar skilyrði sköpuðust til að færa sig burt frá búskap, gripu bændur - þeir höfðu alla þræði þjóðlífsins í hendi sér - til þess ráðs að binda vinnufólk með lögum við bújarðir þeirra. Þeir þóttust með þessu vera að forða blessuðu fólkinu frá óvissum kjörum við sjósókn, en þeir voru í rauninni að tryggja sjálfum sér ódýrt - nei, ókeypis! - vinnuafl. Þeim dugði skv. lögum að greiða vinnuhjúum hálft kúgildi á ári. Vinnuhjúum var meinað að giftast og eignast börn eftir þeirri kenningu, að landið gæti ekki borið fleira fólk. Fjórðungur mannaflans bjó við þessa kúgun nær alla 19. öld. Gegn þessum órétti þorði Jón Sigurðsson ekki að rísa: hann skrifaði aldrei staf um málið og var þó sískrifandi um alla skapaða hluti. Trúlega vildi hann ekki taka upp önnur mál en þau, sem hann taldi sig geta komið í höfn. Vistarbandið var ekki numið úr lögum fyrr en eftir hans dag, laust fyrir aldamótin 1900. Það eimdi samt eftir af því langt fram eftir 20. öldinni. Búverndarstefnan, sem var tekin upp í kringum 1920 og hefur haldizt við lýði æ síðan, er beint framhald þess ofríkis, sem bændur sýndu öðrum í krafti vistarbandsins á 19. öld. Búverndin leggur þungar byrðar á þjóðina, fátækt fólk ekki sízt, og þá um leið á bændur sjálfa. Skýringin á þessari ófremd landbúnaðarins er einföld. Með auknum markaðsbúskap hefur efnahagslíf landsins tekið stakkaskiptum síðan 1960, en frívæðing hagkerfisins hefur að mestu farið fram hjá landbúnaði: honum var hlíft. Hann er ennþá rekinn eftir hálfsovézkum uppskriftum, sem bera dauðann í sér. Óhagkvæmnina má t.d. ráða af bústærðinni: aðeins 170 býli af tæplega 2400 hafa yfir þúsund fjár, sem þætti sómasamleg bústærð í öðrum löndum. Önnur býli eru minni, sum svo lítil (þriðjungur með innan við 200 fjár), að það er af og frá, að undir þeim geti verið skynsamlegur rekstrargrundvöllur. Nú hefur smábýlum að vísu fækkað verulega síðan 1991 og stórbýlum hefur fjölgað, en eigi að síður eru hagkvæm stórbýli ennþá sjaldgæf undantekning - og eru þau þó engir risar á erlendan mælikvarða, langt frá því. Við þessari óhagkvæmni hefur ekki mátt hrófla áratugum saman, því að þá sögðu menn, að landbúnaður myndi leggjast af. Hvaða landbúnaður? Sauðfjárræktin þarf að dragast saman og hefur gert það af þeirri einföldu ástæðu, að neyzla kindakjöts hefur minnkað um helming s.l. 20 ár. Fólk vill heldur neyta svínakjöts og fuglakjöts: æ fleira fólki finnst það vera betri matur, og þá þurfa bændur að breyta framleiðslu sinni til samræmis við breyttan smekk eins og aðrir. Söðlasmiðir hættu að gera söðla og smíðuðu heldur hnakka, þegar konur byrjuðu að ganga og ríða út í buxum. En þótt samsetning búvöruframleiðslunnar breytist, þá þarf heildarframleiðslan ekki að breytast, því að fæðuþörf fólksins stendur í stað af líffræðilegum ástæðum. Landbúnaður snýst ekki eingöngu um matarframleiðslu, heldur einnig t.d. um hrossarækt til útflutnings, ferðaþjónustu og margt fleira: þessi þróun er hafin, en fjáraustur almannavaldsins í sauðfjárrækt og víðar stendur í vegi fyrir eðlilegum hraða. Blómleg byggð í sveitum útheimtir ekki endilega sama landbúnað og áður, heldur samrýmist hún ágætlega annarri atvinnu af ýmsu tagi - atvinnu, sem miðar að því að fullnægja eftirspurn á markaði. Ýmsir forustumenn Framsóknarflokksins virðast nú gera sér ljósa grein fyrir málinu, að varaformanni flokksins og landbúnaðarráðherra þó undan skildum. Í þessu ljósi er e.t.v. rétt að skoða aðsteðjandi sinnaskipti flokksins í Evrópumálinu, enda myndi innganga Íslands í Evrópusambandið liðka talsvert til í landbúnaði og veita landsfólkinu kost á fjölbreyttari, betri og ódýrari mat, og víni. Eftir situr þá Sjálfstæðisflokkurinn, blýfastur í forneskjunni. Hann er á móti frjálslegri landbúnaðarstefnu, móti Evrópusambandinu, móti frjálsum fjölmiðlum, móti stjórnarskránni, móti Siðanefnd Háskólans: hvað skyldi koma næst?