Innlent

Ríkið tekur 84% af vodkaflösku

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær eiga Íslendingar heimsmet í skattlagningu á áfengi. Samkvæmt sundurliðuðum kostnaðartölum frá ÁTVR fer hlutur ríkisins í einstakri vörutegund upp í allt að 85% af verði. Þannig borgar neytandinn ríkinu 2419 krónur í skatt af hverri keyptri 700 ml. Absolut vodkaflösku, sem kostar 2880 krónur í vínbúð. Inni í þeirri tölu er bæði 24,5% virðisaukaskattur, sem hljóðar upp á 567 kr. í þessu tiltekna dæmi, og áfengisgjald, sem hljóðar upp á 1852 krónur. Skatthlutfall í öðrum tegundum er einnig hátt. Þannig tekur ríkið um 59% af hverri seldri flösku af Baileys líkjör, 62% af tiltölulega ódýrri franskri Merlot rauðvínsflösku og 68% af hverri seldri dós af Tuborg Gold. Þegar áfengisgjald á sterkt vín, þar sem skatthlutfallið er hvað hæst, er borið saman við áfengisgjöld í nágrannalöndum sést ótvírætt að Íslendingar eiga vinninginn í álagningu. Bretar leggja 1066 kr áfengisgjald á hvern lítra af 40% áfengi, Þjóðverjar 447 krónur, Danir 667 krónur, Svíar 1891 krónu og Kýpurbúar 71 krónu. Norðmenn skattleggja rausnarlega og leggja 2327 krónur á hvern seldan lítra af 40% áfengi, en komast þó ekki með tærnar þar sem Íslendingar hafa hælana, með 2646 krónur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×