Lífið

Plexígler í uppáhaldi

Plexígler er í miklu uppáhaldi hjá Þórunni Högnadóttur, hönnuði og sjónvarpskonu. "Það eru ótrúlegir möguleikar með þetta efni, hægt er að velja hvaða lit sem er, efnið er til í mörgum þykktum, auðvelt er að beygja það og sveigja og best er hvað það er ódýrt." Heimili hennar og verkefnin sem hún hefur tekið að sér bera áhuganum glögg merki. "Núna er ég að klæða gamlan tekkskenk með hvítu plexígleri, þetta er svolítið nostur en alveg óskaplega gaman," segir Þórunn og bætir við að nýjasta æðið hjá henni sé að skreyta fyrir barnaafmæli. "Ég var að gera barnaafmæli fyrir Gestgjafann um daginn og gjörsamlega missti mig í öllu skrautinu, þarna fékk skreytiþörfin hjá mér allsherjar útrás." Þórunn er nýr meðstjórnandi Valgerðar Matthíasdóttur í hinum sívinsæla sjónvarpsþætti Innlit/útlit sem hóf göngu sína á ný á Skjá einum á dögunum. Þórunn hefur óbilandi áhuga á öllu sem viðkemur fallegu heimili, innanhúshönnun er henni hugleikin og skreytiþörfin er mikil. Ásamt því að heimsækja landsmenn á skjánum starfar Þórunn sem stílisti hjá NTC hf., sinnir ýmsum verkefnum á sviði útlitshönnunar og tekur að sér veisluskreytingar. Þrátt fyrir að nóg sé að gera sest Þórunn gjarnan niður með skissubókina í frítímanum og leyfir huganum að reika. Hún hefur sjálf hannað þó nokkra hluti sem prýða heimili hennar, bæði hannar hún hlutina frá grunni og hefur einnig gaman af því að setja gamla muni í nýjan búning.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.