Innlent

Lítill vilji til lagasetningar

Þingflokkar stjórnarflokkanna hafa ekki komið saman til að ræða kennaraverkfallið sem hófst fyrir viku. Hjálmar Árnason, formaður þingflokks Framsóknarflokks, segir að menn hafi rætt þetta sín á milli þó það hafi ekki verið rætt með formlegum hætti, enda hafi þingflokkurinn ekki komið saman síðan verkfallið hófst. Hjálmar segir að sér hugnist ekki að enda verkfallið með lagasetningu. Sveitarfélög og kennarar verði að semja. Einar K. Guðfinnsson, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokks segir að þingflokkurinn hafi ekki komið saman í liðinni viku og því hafi verkfallið ekki verið rætt. Hann segir einsýnt að verkfallið verði rætt á þingflokksfundi sem boðaður hefur verið 1. október, standi það þá enn yfir. Einar vildi ekki tjá sig um hvort binda ætti enda á verkfallið með lögum. Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur rætt málið formlega með forystumönnum flokksins í sveitarstjórnum. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar segir að á fundinum hafi komið fram sterkur skilningur á kröfum kennara. Hann segir órökrétt að ræða lagasetningu á þessu stigi, ríkisvaldið eigi frekar að huga að því að rétta hlut sveitarfélaganna í tekjuskiptingu þeirra og ríkisins. Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs hefur fjallað um verkfallið. Ögmundur Jónasson, formaður hans, segir þingflokkinn styðja kjarabaráttu kennara og útilokar að samþykkja lög til að ljúka verkfallinu. Það sé hins vegar skylda ríkisins að koma til móts við sveitarfélögin, sem séu fjárhagslega illa stödd. Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, segir að þingflokkurinn ræði málið í dag. Hann telur ótímabært fyrir ríkisvaldið að grípa inn í deiluna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×