Tvíhöfðavaldið staðfest 3. október 2004 00:01 Tvíhöfðinn, sem þessa stundina er handhafi framkvæmdavalds íslenska lýðveldisins, er búinn að sitja svo lengi við völd að hann telur sig hafinn yfir stund og stað, völdin muni vera hans að eilífu. Stundum gleymist valdhöfunum í lýðræðisríki að umboð þeirra til valdanna er tímabundið og takmarkað af lögum og stjórnarskrá, og ganga þá þvert á grunnregluna um þrískiptingu valdsins og reyna að safna öllum valdþráðum lýðveldisins saman í hendi sér. Framkvæmdavaldið sækir nú bæði að dómsvaldinu og löggjafarvaldinu í senn. Gagnrýnendur eru yfirleitt sammála um að skipan Jóns Steinars Gunnlaugssonar í Hæstarétt sé þáttur í þeirri baráttu fyrrverandi forsætisráðherra við réttinn, sem hann hefur háð á undanförnum árum. Hann hyggst greinilega fylla réttinn af frændum, vinum og dyggum flokksklíkubræðrum í þeim tilgangi að koma í veg fyrir það sem hann hefur kallað "pólitíska dóma" Hæstaréttar, dóma sem meira hafi verið byggðir á pólitískum viðhorfum en lögum. Hæstiréttur vísaði í fyrradag frá dómi málatilbúnaði þeirra klíkubræðra Hannesar Hólmsteins og Jóns Steinars gegn siðanefnd Háskólans. Leiða má getum að því að hefði hlutverkum þá verið snúið við og Jón Steinar kominn í þriggja manna dóm hæstaréttar við hlið Ólafs Barkar hefði dómsorðið líka snúist við, prófessornum í vil. Á næstu árum komast a.m.k. tveir dómarar réttarins á aldur þannig að tækifæri gefast til að skipa dóminn að meirihluta pólitískum vinum og ættingjum valdamanna stjórnarflokkanna samkvæmt þeim fordæmum sem nú hafa verið gefin. Gleymum því ekki að skipan Hæstaréttar er eitt helsta bitbein stjórnmálaflokkanna í Bandaríkjunum og að þar er öldungadeild þingsins valdhemill á veitingavald forsetans. Útilokun Kristins H. Gunnarssonar frá setu í öllum nefndum þingsins ber öll merki hinnar sömu sóknar núverandi handhafa framkvæmdavaldsins inn á svið löggjafarvaldsins. Stjórnarskrárbundinn réttur þingmanns til að fara eingöngu eftir boðum samvisku sinnar í afstöðu til mála er virtur að vettugi. Kristni er gefið að sök að hafa gengið gegn þingflokknum í fjölmiðlamálinu og að hafa ljóstrað því upp að við róttækustu umturnun í öryggismálum landsins, sem hér hefur átt sér stað frá inngöngunni í NATO, hafi ekki verið haft samráð við einn né neinn, málið hvorki rætt í ríkisstjórn, þingflokkum né utanríkismálanefnd alþingis. Hingað til hefur verið litið svo á að þingmaður sem lýsir yfir stuðningi við ríkisstjórn, styður hana í verki við afgreiðslu fjárlaga og er reiðubúinn til að verja hana vantrausti hvenær sem er hafi frjálsar hendur um afgreiðslu einstakra mála sem stjórnin gerir ekki fyrirfram að fráfararatriði. Nú er uppi kenningin um hina múlbundnu liðsheild, sem er skyld til að fylgja flokksforingjunum og ákvörðun þeirra í blindni, jafnvel svo að ekki má breyta stafkrók í stjórnarfrumvörpum þegar þau koma til afgreiðslu í nefndum þingsins. Morgunblaðið sýnir þessari hörku fullan skilning og spáir því í leiðara á miðvikudaginn að næsta skref sé að útiloka Kristin frá framboði fyrir Framsóknarflokkinn í kjördæmi sínu fyrir næstu kosningar! Fyrir skömmu leiddi ég rök að því í þessum dálkum að raunverulegar kosningar þingmanna færu fram í prófkjörum flokkanna eða í ákvörðunum fámennra fulltrúaráða um frambjóðendur og röð þeirra á flokkslistum, og um þær kosningar giltu engar reglur nema lög frumskógarins. Í hinum lögmætu kosningum væri aðeins tekist á um örfá sæti en að öðru leyti snerust þær einungis um þau valdahlutföll sem flokkarnir hefðu, þegar kæmi að hrossakaupum um myndun samsteypustjórnar eftir kosningar. Ráði flokksforingjarnir að öðru leyti því líka hverjir fá að fara í framboð er alþingi alfarið orðið að afgreiðslustofnun, þar sem einungis fer fram lögformleg stjórnarfarsbundin stimplun á vilja hins alvalda Tvíhöfða. Í þeim átökum sem urðu í vor um 26. grein stjórnarskrárinnar sýndum við fylgismenn greinarinnar fram á það, að þingmenn árið 1944 hefðu hugsað hana sem valdhemil á löggjafarvald alþingis; þjóðkjörinn forseti færi með löggjafarvaldið ásamt þinginu og gæti skotið málum til þjóðarinnar til úrskurðar, gengi alþingi gegn þjóðarviljanum. Valdið kæmi frá þjóðinni og því eðlilegt að hún úrskurðaði um mál, sem annars sköpuðu hættu á djúpstæðri þjóðarsundrung. Gegn þeirri skoðun stefndi Jón Steinar Gunnlaugsson kenningu um alveldi þingsins. Og hann gekk lengra. Hann lagði til að embætti þjóðkjörins forseta yrði lagt niður, til vara að 26. greinin yrði felld úr gildi, og til þrautavara að við þjóðaratkvæðagreiðsluna yrði krafist stóraukins meirihluta. Það er ljóst að það er vegið að grunnreglum lýðræðisins úr öllum áttum: Sjálfstæði dómsvaldsins, sjálfstæði löggjafarvaldsins, og einnig skal afnuminn síðasti neyðarhemillinn, embætti þjóðkjörins forseta, sem er heimilt að skjóta málum í dóm þeirrar þjóðar sem er uppspretta alls valds. Er þá við hæfi að ljúka þessum pistli með því að endurtaka enn einu sinni varnaðarorð Madisons, fjórða forseta Bandaríkjanna: "Safnist löggjafarvald, dómsvald og framkvæmdavald á sömu hendur… þá er það réttnefnd ógnarstjórn." Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Ólafur Hannibalsson Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Biðin eftir leigubíl Elín Anna Gísladóttir Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun
Tvíhöfðinn, sem þessa stundina er handhafi framkvæmdavalds íslenska lýðveldisins, er búinn að sitja svo lengi við völd að hann telur sig hafinn yfir stund og stað, völdin muni vera hans að eilífu. Stundum gleymist valdhöfunum í lýðræðisríki að umboð þeirra til valdanna er tímabundið og takmarkað af lögum og stjórnarskrá, og ganga þá þvert á grunnregluna um þrískiptingu valdsins og reyna að safna öllum valdþráðum lýðveldisins saman í hendi sér. Framkvæmdavaldið sækir nú bæði að dómsvaldinu og löggjafarvaldinu í senn. Gagnrýnendur eru yfirleitt sammála um að skipan Jóns Steinars Gunnlaugssonar í Hæstarétt sé þáttur í þeirri baráttu fyrrverandi forsætisráðherra við réttinn, sem hann hefur háð á undanförnum árum. Hann hyggst greinilega fylla réttinn af frændum, vinum og dyggum flokksklíkubræðrum í þeim tilgangi að koma í veg fyrir það sem hann hefur kallað "pólitíska dóma" Hæstaréttar, dóma sem meira hafi verið byggðir á pólitískum viðhorfum en lögum. Hæstiréttur vísaði í fyrradag frá dómi málatilbúnaði þeirra klíkubræðra Hannesar Hólmsteins og Jóns Steinars gegn siðanefnd Háskólans. Leiða má getum að því að hefði hlutverkum þá verið snúið við og Jón Steinar kominn í þriggja manna dóm hæstaréttar við hlið Ólafs Barkar hefði dómsorðið líka snúist við, prófessornum í vil. Á næstu árum komast a.m.k. tveir dómarar réttarins á aldur þannig að tækifæri gefast til að skipa dóminn að meirihluta pólitískum vinum og ættingjum valdamanna stjórnarflokkanna samkvæmt þeim fordæmum sem nú hafa verið gefin. Gleymum því ekki að skipan Hæstaréttar er eitt helsta bitbein stjórnmálaflokkanna í Bandaríkjunum og að þar er öldungadeild þingsins valdhemill á veitingavald forsetans. Útilokun Kristins H. Gunnarssonar frá setu í öllum nefndum þingsins ber öll merki hinnar sömu sóknar núverandi handhafa framkvæmdavaldsins inn á svið löggjafarvaldsins. Stjórnarskrárbundinn réttur þingmanns til að fara eingöngu eftir boðum samvisku sinnar í afstöðu til mála er virtur að vettugi. Kristni er gefið að sök að hafa gengið gegn þingflokknum í fjölmiðlamálinu og að hafa ljóstrað því upp að við róttækustu umturnun í öryggismálum landsins, sem hér hefur átt sér stað frá inngöngunni í NATO, hafi ekki verið haft samráð við einn né neinn, málið hvorki rætt í ríkisstjórn, þingflokkum né utanríkismálanefnd alþingis. Hingað til hefur verið litið svo á að þingmaður sem lýsir yfir stuðningi við ríkisstjórn, styður hana í verki við afgreiðslu fjárlaga og er reiðubúinn til að verja hana vantrausti hvenær sem er hafi frjálsar hendur um afgreiðslu einstakra mála sem stjórnin gerir ekki fyrirfram að fráfararatriði. Nú er uppi kenningin um hina múlbundnu liðsheild, sem er skyld til að fylgja flokksforingjunum og ákvörðun þeirra í blindni, jafnvel svo að ekki má breyta stafkrók í stjórnarfrumvörpum þegar þau koma til afgreiðslu í nefndum þingsins. Morgunblaðið sýnir þessari hörku fullan skilning og spáir því í leiðara á miðvikudaginn að næsta skref sé að útiloka Kristin frá framboði fyrir Framsóknarflokkinn í kjördæmi sínu fyrir næstu kosningar! Fyrir skömmu leiddi ég rök að því í þessum dálkum að raunverulegar kosningar þingmanna færu fram í prófkjörum flokkanna eða í ákvörðunum fámennra fulltrúaráða um frambjóðendur og röð þeirra á flokkslistum, og um þær kosningar giltu engar reglur nema lög frumskógarins. Í hinum lögmætu kosningum væri aðeins tekist á um örfá sæti en að öðru leyti snerust þær einungis um þau valdahlutföll sem flokkarnir hefðu, þegar kæmi að hrossakaupum um myndun samsteypustjórnar eftir kosningar. Ráði flokksforingjarnir að öðru leyti því líka hverjir fá að fara í framboð er alþingi alfarið orðið að afgreiðslustofnun, þar sem einungis fer fram lögformleg stjórnarfarsbundin stimplun á vilja hins alvalda Tvíhöfða. Í þeim átökum sem urðu í vor um 26. grein stjórnarskrárinnar sýndum við fylgismenn greinarinnar fram á það, að þingmenn árið 1944 hefðu hugsað hana sem valdhemil á löggjafarvald alþingis; þjóðkjörinn forseti færi með löggjafarvaldið ásamt þinginu og gæti skotið málum til þjóðarinnar til úrskurðar, gengi alþingi gegn þjóðarviljanum. Valdið kæmi frá þjóðinni og því eðlilegt að hún úrskurðaði um mál, sem annars sköpuðu hættu á djúpstæðri þjóðarsundrung. Gegn þeirri skoðun stefndi Jón Steinar Gunnlaugsson kenningu um alveldi þingsins. Og hann gekk lengra. Hann lagði til að embætti þjóðkjörins forseta yrði lagt niður, til vara að 26. greinin yrði felld úr gildi, og til þrautavara að við þjóðaratkvæðagreiðsluna yrði krafist stóraukins meirihluta. Það er ljóst að það er vegið að grunnreglum lýðræðisins úr öllum áttum: Sjálfstæði dómsvaldsins, sjálfstæði löggjafarvaldsins, og einnig skal afnuminn síðasti neyðarhemillinn, embætti þjóðkjörins forseta, sem er heimilt að skjóta málum í dóm þeirrar þjóðar sem er uppspretta alls valds. Er þá við hæfi að ljúka þessum pistli með því að endurtaka enn einu sinni varnaðarorð Madisons, fjórða forseta Bandaríkjanna: "Safnist löggjafarvald, dómsvald og framkvæmdavald á sömu hendur… þá er það réttnefnd ógnarstjórn."
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun