Kristin-fræði Framsóknar 3. október 2004 00:01 Á hátíðarstundum hafa ýmsir – ekki síst framsóknarmenn - gaman af því að vísa til pólitískrar stjórnvisku Þorgeirs Ljósvetningagoða við kristnitökuna á Þingvöllum fyrir þúsund árum síðan. Hans niðurstaða var að ef menn slitu sundur siðinn í landinu myndu menn og slíta sundur friðinn. En þrátt fyrir þessa niðurstöðu vissi Þorgeir að óraunhæft var að ætlast til þess að menn sneru heim frá Þingvöllum og gengu í einu og öllu í samræmdum takti hins nýja siðar. Þess vegna fengu menn aðlögunartíma og máttu meðal annars blóta á laun. Þessi saga er jafnan rifjuð upp til að minna á að hægt er að leysa friðsamlega úr ágreiningsefnum, sé til þess vilji og skynsemi til að lempa mál og gefa jafnvel stundum eitthvað eftir. Í því felst kjarni hinnar pólitísku kristinfræði Ljósvetningagoðans. Andstæðu hennar má hins vegar finna í ofstæki og óbilgirni Ólafs Tryggvasonar og Þangbrands, sem boðuðu sinn Krist með brugðnu sverði. Framsóknarflokkurinn hefur í þessari viku verið að kynna sérstaka útgáfu af pólitískri Kristin-fræði. Kristinn H. Gunnarsson, sem vissulega hefur verið erfiður í samstarfi í þingflokki Framsóknarflokksins, hefur nú verið gerður landlaus í nefndarstarfi Alþingis. Algerlega. Hjálmar Árnason þingflokksformaður talar um samstarfsörðugleika. Það kann að vera mikið til í því, enda greiddu allir viðstaddir þingmenn flokksins - utan einn – þessum málalyktum atkvæði sitt. Hins vegar hefur sérstaða Kristins í flokknum, og það að hann hefur tilhneigingu til að kjósa ágreininginn ef hann er í boði, verið öllum ljós um nokkurra ára skeið. Kristinn tókst á við kraftmikla flokksmenn um sæti á framboðslistanum einmitt á þessum forsendum. Hann fór líka í kosningar undir merkjum Framsóknar á þessum forsendum fyrir hálfu öðru ári síðan. Í þeim kosningum fékk flokkurinn næstum nákvæmlega jafn mörg atkvæði, eða ríflega 4.000, í hinu litla kjördæmi Kristins og hann fékk í höfuðborgarkjördæmi Halldórs Ásgrímssonar og Árna Magnússonar. Vitaskuld á Kristinn ekki einn heiðurinn af öllum þeim atkvæðum, en það er augljóst að maðurinn er fjarri því að vera umboðslaus í þingflokknum. Ef trúnaðarbresturinn milli þessa þingmanns og þingflokksins er slíkur að honum sé ekki einu sinni treystandi til að taka þátt í nefndarstörfum, hvað þá meira, er mjög brýnt að forusta þingflokksins útskýri í hverju þessi trúnaðarbrestur felst. Það hefur ekki verið gert og þar til það er gert er ekki hægt að fella aðgerðir þingflokksins inn í neina skilgreiningu á meðalhófi og því síður pólitískri skynsemi. Sjálfur hefur Kristinn komið fram með trúlega skýringu, sem er einfaldlega sú að verið sé að refsa honum fyrir að hafa borið fram og staðið við skoðanir sem falla ekki að meirihlutaskoðun þingflokksins og forustumanna ríkisstjórnarinnar. Þar hefur Íraksmálið verið nefnt og þá ekki síður fjölmiðlamál síðastliðins sumars. Slíkar refsiaðgerðir ríma jafnframt við yfirlýsingar ýmissa þingmanna flokksins sem tala mikið um liðsheild og að menn standi saman út á við. Þá styður það kenningu Kristins að "hinn þingmaðurinn" sem viðraði efasemdir og andstöðu í fjölmiðlamálinu, Jónína Bjartmarz, er jafnframt "hinn þingmaður" Framsóknar, sem trúað er fyrir minni ábyrgð á vegum flokksins nú en áður í þinginu. Hún víkur úr utanríkismálanefnd, en bætir ekki við sig póstum eins og flestir hinir óbreyttu þingmannanna. Það vekur enda athygli, að Jónína sat ein hjá við afgreiðsluna á þessari niðurstöðu þingflokksins! Ekki kæmi á óvart þótt að minnsta kosti einhverjir kjósendur Framsóknar velti fyrir sér hvar hátíðarræðurnar um pólitíska kristinfræði Þorgeirs Ljósvetningagóða hafi verið á þessum merkilega þingflokksfundi. Fyrir flokk sem hefur á síðustu mánuðum fengið á sig neikvæða ímynd stjórnlyndis og óþols gagnvart gagnrýni er afar óheppilegt að ástunda vinnubrögð sem minna meira á Ólaf Tryggvason og Þangbrand en Ljósvetningagoðann. Framsóknarflokksins vegna væri óskandi að fram kæmu einhverjar haldbetri skýringar á ákvörðunum þingflokksins. Hins vegar er varla við því að búast, enda er hér líklega um að ræða anga af víðtækara fyrirbæri stjórnmálanna sem ekki er bundið við Framsóknarflokkinn einan. Þessu ferli lýsti heimspekingurinn og skólafrömuðurinn Guðmundur Finnbogason einmitt mjög vel fyrir nákvæmlega 80 árum í ritinu Stjórnarbót, sem út kom 1924. Þar segir Guðmundur: "Fyrsta skilyrði þess að flokkur verði sigursæll er það, að flokksmennirnir séu samhuga og fylgist vel að málum, að hver maður í flokknum breiði út þær skoðanir er flokkurinn heldur fram og reyni á allan hátt að auka þeim fylgi. Þess vegna verða stjórnmálaskoðanir hvers flokks brátt eins konar trúarbrögð flokksmanna. Það myndast trúarsetningar, sem ætlast er til að allir flokksmenn fylgi og hver sem fer að hugsa sjálfstætt um málin og kemur fram með ágreiningsatriði við skoðanir flokksstjórnarinnar, verður brátt vargur í véum, því hann er hættulegur fyrir samheldnina, dregur úr trúaráhuganum og leysir sundur í stað þess að binda saman. Það eru talin svik við flokkinn að halda fram öðrum skoðunum en þeim sem koma heim og saman við stefnu hans. Þar sem svona er í garðinn búið, þá er ekki von að stjórnmálaflokkar verði neinar gróðrarstöðvar frjálsar hugsunar um þjóðmálin og rannsókar á þeim. Aðaláhuginn snýst um það að halda saman, vinna sigur á öðrum flokkum, ná í völd og halda þeim. Þar með verða flokkshagsmunirnir brátt aðalatriðið í baráttunni." Svo mörg voru þau orð. Stundum er sagt að vika sé langur tími í pólitík. Ljóst er líka að 80 ár geta verið stuttur tími í pólitík. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birgir Guðmundsson Fastir pennar Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun
Á hátíðarstundum hafa ýmsir – ekki síst framsóknarmenn - gaman af því að vísa til pólitískrar stjórnvisku Þorgeirs Ljósvetningagoða við kristnitökuna á Þingvöllum fyrir þúsund árum síðan. Hans niðurstaða var að ef menn slitu sundur siðinn í landinu myndu menn og slíta sundur friðinn. En þrátt fyrir þessa niðurstöðu vissi Þorgeir að óraunhæft var að ætlast til þess að menn sneru heim frá Þingvöllum og gengu í einu og öllu í samræmdum takti hins nýja siðar. Þess vegna fengu menn aðlögunartíma og máttu meðal annars blóta á laun. Þessi saga er jafnan rifjuð upp til að minna á að hægt er að leysa friðsamlega úr ágreiningsefnum, sé til þess vilji og skynsemi til að lempa mál og gefa jafnvel stundum eitthvað eftir. Í því felst kjarni hinnar pólitísku kristinfræði Ljósvetningagoðans. Andstæðu hennar má hins vegar finna í ofstæki og óbilgirni Ólafs Tryggvasonar og Þangbrands, sem boðuðu sinn Krist með brugðnu sverði. Framsóknarflokkurinn hefur í þessari viku verið að kynna sérstaka útgáfu af pólitískri Kristin-fræði. Kristinn H. Gunnarsson, sem vissulega hefur verið erfiður í samstarfi í þingflokki Framsóknarflokksins, hefur nú verið gerður landlaus í nefndarstarfi Alþingis. Algerlega. Hjálmar Árnason þingflokksformaður talar um samstarfsörðugleika. Það kann að vera mikið til í því, enda greiddu allir viðstaddir þingmenn flokksins - utan einn – þessum málalyktum atkvæði sitt. Hins vegar hefur sérstaða Kristins í flokknum, og það að hann hefur tilhneigingu til að kjósa ágreininginn ef hann er í boði, verið öllum ljós um nokkurra ára skeið. Kristinn tókst á við kraftmikla flokksmenn um sæti á framboðslistanum einmitt á þessum forsendum. Hann fór líka í kosningar undir merkjum Framsóknar á þessum forsendum fyrir hálfu öðru ári síðan. Í þeim kosningum fékk flokkurinn næstum nákvæmlega jafn mörg atkvæði, eða ríflega 4.000, í hinu litla kjördæmi Kristins og hann fékk í höfuðborgarkjördæmi Halldórs Ásgrímssonar og Árna Magnússonar. Vitaskuld á Kristinn ekki einn heiðurinn af öllum þeim atkvæðum, en það er augljóst að maðurinn er fjarri því að vera umboðslaus í þingflokknum. Ef trúnaðarbresturinn milli þessa þingmanns og þingflokksins er slíkur að honum sé ekki einu sinni treystandi til að taka þátt í nefndarstörfum, hvað þá meira, er mjög brýnt að forusta þingflokksins útskýri í hverju þessi trúnaðarbrestur felst. Það hefur ekki verið gert og þar til það er gert er ekki hægt að fella aðgerðir þingflokksins inn í neina skilgreiningu á meðalhófi og því síður pólitískri skynsemi. Sjálfur hefur Kristinn komið fram með trúlega skýringu, sem er einfaldlega sú að verið sé að refsa honum fyrir að hafa borið fram og staðið við skoðanir sem falla ekki að meirihlutaskoðun þingflokksins og forustumanna ríkisstjórnarinnar. Þar hefur Íraksmálið verið nefnt og þá ekki síður fjölmiðlamál síðastliðins sumars. Slíkar refsiaðgerðir ríma jafnframt við yfirlýsingar ýmissa þingmanna flokksins sem tala mikið um liðsheild og að menn standi saman út á við. Þá styður það kenningu Kristins að "hinn þingmaðurinn" sem viðraði efasemdir og andstöðu í fjölmiðlamálinu, Jónína Bjartmarz, er jafnframt "hinn þingmaður" Framsóknar, sem trúað er fyrir minni ábyrgð á vegum flokksins nú en áður í þinginu. Hún víkur úr utanríkismálanefnd, en bætir ekki við sig póstum eins og flestir hinir óbreyttu þingmannanna. Það vekur enda athygli, að Jónína sat ein hjá við afgreiðsluna á þessari niðurstöðu þingflokksins! Ekki kæmi á óvart þótt að minnsta kosti einhverjir kjósendur Framsóknar velti fyrir sér hvar hátíðarræðurnar um pólitíska kristinfræði Þorgeirs Ljósvetningagóða hafi verið á þessum merkilega þingflokksfundi. Fyrir flokk sem hefur á síðustu mánuðum fengið á sig neikvæða ímynd stjórnlyndis og óþols gagnvart gagnrýni er afar óheppilegt að ástunda vinnubrögð sem minna meira á Ólaf Tryggvason og Þangbrand en Ljósvetningagoðann. Framsóknarflokksins vegna væri óskandi að fram kæmu einhverjar haldbetri skýringar á ákvörðunum þingflokksins. Hins vegar er varla við því að búast, enda er hér líklega um að ræða anga af víðtækara fyrirbæri stjórnmálanna sem ekki er bundið við Framsóknarflokkinn einan. Þessu ferli lýsti heimspekingurinn og skólafrömuðurinn Guðmundur Finnbogason einmitt mjög vel fyrir nákvæmlega 80 árum í ritinu Stjórnarbót, sem út kom 1924. Þar segir Guðmundur: "Fyrsta skilyrði þess að flokkur verði sigursæll er það, að flokksmennirnir séu samhuga og fylgist vel að málum, að hver maður í flokknum breiði út þær skoðanir er flokkurinn heldur fram og reyni á allan hátt að auka þeim fylgi. Þess vegna verða stjórnmálaskoðanir hvers flokks brátt eins konar trúarbrögð flokksmanna. Það myndast trúarsetningar, sem ætlast er til að allir flokksmenn fylgi og hver sem fer að hugsa sjálfstætt um málin og kemur fram með ágreiningsatriði við skoðanir flokksstjórnarinnar, verður brátt vargur í véum, því hann er hættulegur fyrir samheldnina, dregur úr trúaráhuganum og leysir sundur í stað þess að binda saman. Það eru talin svik við flokkinn að halda fram öðrum skoðunum en þeim sem koma heim og saman við stefnu hans. Þar sem svona er í garðinn búið, þá er ekki von að stjórnmálaflokkar verði neinar gróðrarstöðvar frjálsar hugsunar um þjóðmálin og rannsókar á þeim. Aðaláhuginn snýst um það að halda saman, vinna sigur á öðrum flokkum, ná í völd og halda þeim. Þar með verða flokkshagsmunirnir brátt aðalatriðið í baráttunni." Svo mörg voru þau orð. Stundum er sagt að vika sé langur tími í pólitík. Ljóst er líka að 80 ár geta verið stuttur tími í pólitík.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun