Lífið

Skammdegið lýst upp

Í yfirvofandi skammdegi getur góð lýsing utandyra skipt miklu máli við aðkomu að heimili og dregið húsin úr myrkrinu í hlýlegt ljósið. Ýmsar ólíkar tegundir af ljósum bjóða upp á skemmtilega möguleika og fólk getur komið ljósum fyrir hvar sem er. Baldvin Bjarnason hjá Rafkaupum segir ljós á staurum vera mjög vinsæl og þeim sé hægt að raða upp hvernig sem er. "Halógenljósin eru mjög vinsæl og hægt er að fá litafiltera á ljósin og mikið um að fólk skipti út litum yfir hátíðarnar sem gerir stemninguna skemmtilega," segir Baldvin. Innfeld ljós eru mjög sniðug og hægt að koma fyrir í stéttum, steinum eða á trépöllum og eru skemmtileg í kringum heita pottinn. "Nýjasta nýtt er díóður sem taka nánast ekkert rafmagn og ljósið dugar í hundrað þúsund tíma, sem þýðir að ekkert viðhald er á ljósunum," segir Baldvin og bætir við að díóður séu sniðugar í kringum heita pottinn þar sem þær hitna ekki. Baldvin segir að gífurlega hafi aukist að fólk fái til sín arkitekta til að skipuleggja ljósin í kringum húsin sín. "Glæsileg lýsing gerbreytir ásýnd hússins," segir Baldvin.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×