Olíulindir og stjórnmál 7. október 2004 00:01 Sex af þeim tíu löndum, sem búa að mestu olíulindum heims, eru einræðislönd: Sádi-Arabía, Íran, Írak, Sameinuðu furstadæmin, Kúveit og Líbía. Þau er öll í Austurlöndum nær, og þau ein eiga tvo þriðju hluta af allri olíu heimsins. Sádi-Arabía er harðsvíraðasta einræðisríki í heimi skv. nýlegum lýðræðismælingum stjórnmálafræðinga. Öll lönd Araba í Austurlöndum nær eru reyndar einræðisríki, einnig þau, sem eiga engar olíulindir. Hvers vegna er lítið sem ekkert lýðræði í þessum löndum? Svarið blasir við: þeir, sem hafa ráðin í hendi sér þarna austur frá, mega ekki til þess hugsa að missa tökin á olíulindunum. Olíugnægðin kallar á einræði eða fáræði, og olíuleysingjarnir í eyðimörkinni virðast hafa smitazt af nágrönnum sínum. Það er vont að eiga vonda granna. Hin löndin fjögur á listanum yfir tíu helztu olíulöndin eru Venesúela, Rússland, Nígería og Bandaríkin (Noregur er í 17. sæti). Þrjú fyrst nefndu löndin eru draghölt lýðræðisríki með langa einræðissögu að baki. Venesúela var einræðisland fram undir 1960 og er enn í kröggum eins og jafnan endranær, einkum vegna átaka stríðandi fylkinga um olíulindirnar. Flokkarnir tveir, sem skiptu með sér völdum í landinu um áratugabil, fóru svo illa með olíuauðinn, að fólkið í landinu – eða réttar sagt meiri hlutinn, sem lifir undir fátæktarmörkum – reis upp 1998 og gerði herforingjann Hugo Chávez að forseta landsins; bezti vinur hans er Fídel Kastró á Kúbu. Landið logar í úlfúð, þar eð gömlu flokkarnir tveir neyta allra bragða til að bola Chávez frá völdum. Í Rússlandi á Pútín forseti í gegndarlausum útistöðum við eigendur olíufyrirtækja og býst til að endursölsa þau undir ríkið til að girða fyrir afskipti eigendanna af stjórnmálum, en þeir voru einkavinir Jeltsíns, forvera Pútíns, og komust þannig yfir olíulindirnar og hafa að undanförnu snúizt á sveif með andstæðingum Pútíns, og það er ekki leyfilegt, nema hvað. Nígería er kapítuli út af fyrir sig. Flest árin síðan 1960, þegar Nígería fékk sjálfstæði, hafa einræðisstjórnir hersins stýrt landinu með illum afleiðingum, en nú er lýðræðisstjórn í landinu í þriðja sinn og hefur setið að völdum síðan 1999. Fyrri lýðræðisskeiðin tvö stóðu stutt, bara nokkur ár. Lífskjör almennings í Nígeríu eru litlu eða engu skárri nú en þau voru 1960: mestur hluti olíugróðans er rokinn út í veður og vind (og þá ekki sízt inn á erlenda bankareikninga einræðisherranna og einkavina þeirra). Bandaríkin eru eina óskoraða lýðræðisríkið á listanum. Olíulindir Sáda eru sýnu mestar. Þær eru nú metnar á 263 milljarða tunna og taldar munu endast í 73 ár enn. Olíuauður næstu fjögurra landa á listanum, með Íran og Írak fremst í flokki, er mun meiri í heild en Sáda, og hann er talinn munu endast þeim í meira en hundrað ár. Írakar eru hálfdrættingar á við Sáda, og má af því ráða mikilvægi beggja landa í augum Bandaríkjastjórnar. Olíulindir Bandaríkjanna eru á hinn bóginn ekki nema einn tíundi af olíulindum Sáda og fimmtungur af olíulindum Íraka, og þær eru nú ekki taldar munu endast nema í ellefu ár í viðbót. (Þessar tölur eru allar sóttar til olíurisans British Petroleum.) Endingartölur um olíu hneigjast að vísu til að standa í stað gegnum tímann, því að menn eru alltaf að bora nýjar holur og finna nýjar lindir í stað annarra, sem tæmast, en ýmislegt er þó talið benda til þess nú, að áætlaður endingartími olíulinda Bandaríkjanna og annarra landa muni styttast enn á næstu árum, enda þótt nýjar lindir kunni að finnast t.d. í iðrum Alaska. Þessar tölur ýta undir þrálátar grunsemdir um það, að höfuðtilgangur Bandaríkjastjórnar með stríðinu í Írak sé að tryggja Bandaríkjunum áfram aðgang að ódýrri olíu þar eystra. Ef Bush forseti stefndi að því að draga úr olíunotkun heima fyrir, væri e.t.v. minni ástæða til tortryggni. En Bush hefur engin áform um slíkt. John Kerry, frambjóðandi demókrata, hefur hins vegar kynnt áætlun um að leysa Bandaríkin undan þörfinni fyrir innflutta olíu innan tíu ára, svo að hægt sé að stokka spilin í Austurlöndum nær upp á nýtt. Forsetinn og varaforsetinn koma báðir úr innsta hring olíugeirans. Þeir lifa og hrærast í heimi olíuframleiðenda. ,,Ég kalla olíu úrgang andskotans", sagði Pérez Alfonso, einn af stofnendum Samtaka olíuútflutningslanda (OPEC), strax árið 1975. ,,Hún er plága. Sjáið vitfirringuna: spillingu, bruðl, almannaþjónustu í upplausn. Og skuldir – skuldir, sem við þurfum að burðast með um mörg ókomin ár." Bandaríkjamenn og Norðmenn hafa komizt hjá slíkum hörmungum. Gömul lýðræðisskipan beggja landa girti fyrir innanlandsátök um gullið svarta. Svo lengi sem olíulindirnar endast og olíurentan heldur áfram að streyma inn á reikninga valdahafanna, munu friður og lýðræði eiga undir högg að sækja í Arabalöndum og öðrum olíulöndum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Þorvaldur Gylfason Mest lesið Ert þú með geðsjúkdóm? Mjög líklega... Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun „Hvenær var þetta samtal við þjóðina tekið?“ spurði garðyrkjubóndinn Halla Hrund Logadóttir Skoðun Geðheilbrigðiskerfi án sálfræðinga, hvernig hljómar það? María Mjöll Björnsdóttir Skoðun Þeir sem þurfa ekki að takast á við afleiðingar gjörða sinna Davíð Már Sigurðsson Skoðun Fær ESB Ísland í jólagjöf? Stefán Vagn Stefánsson Skoðun Náttúruspjöll í sveitarfélagi ársins Kjartan H. Ágústsson Skoðun Tapast hafa sveitarstjórnarmenn af öllu landinu Sigurður Freyr Sigurðarson Skoðun Kjósum Rósu á þing Linda Baldvinsdóttir Skoðun Frekar vandræðalegt Ólafur Hauksson Skoðun Kópavogur lækkar skatta á íbúa Orri Hlöðversson,Gunnar Sær Ragnarsson Skoðun
Sex af þeim tíu löndum, sem búa að mestu olíulindum heims, eru einræðislönd: Sádi-Arabía, Íran, Írak, Sameinuðu furstadæmin, Kúveit og Líbía. Þau er öll í Austurlöndum nær, og þau ein eiga tvo þriðju hluta af allri olíu heimsins. Sádi-Arabía er harðsvíraðasta einræðisríki í heimi skv. nýlegum lýðræðismælingum stjórnmálafræðinga. Öll lönd Araba í Austurlöndum nær eru reyndar einræðisríki, einnig þau, sem eiga engar olíulindir. Hvers vegna er lítið sem ekkert lýðræði í þessum löndum? Svarið blasir við: þeir, sem hafa ráðin í hendi sér þarna austur frá, mega ekki til þess hugsa að missa tökin á olíulindunum. Olíugnægðin kallar á einræði eða fáræði, og olíuleysingjarnir í eyðimörkinni virðast hafa smitazt af nágrönnum sínum. Það er vont að eiga vonda granna. Hin löndin fjögur á listanum yfir tíu helztu olíulöndin eru Venesúela, Rússland, Nígería og Bandaríkin (Noregur er í 17. sæti). Þrjú fyrst nefndu löndin eru draghölt lýðræðisríki með langa einræðissögu að baki. Venesúela var einræðisland fram undir 1960 og er enn í kröggum eins og jafnan endranær, einkum vegna átaka stríðandi fylkinga um olíulindirnar. Flokkarnir tveir, sem skiptu með sér völdum í landinu um áratugabil, fóru svo illa með olíuauðinn, að fólkið í landinu – eða réttar sagt meiri hlutinn, sem lifir undir fátæktarmörkum – reis upp 1998 og gerði herforingjann Hugo Chávez að forseta landsins; bezti vinur hans er Fídel Kastró á Kúbu. Landið logar í úlfúð, þar eð gömlu flokkarnir tveir neyta allra bragða til að bola Chávez frá völdum. Í Rússlandi á Pútín forseti í gegndarlausum útistöðum við eigendur olíufyrirtækja og býst til að endursölsa þau undir ríkið til að girða fyrir afskipti eigendanna af stjórnmálum, en þeir voru einkavinir Jeltsíns, forvera Pútíns, og komust þannig yfir olíulindirnar og hafa að undanförnu snúizt á sveif með andstæðingum Pútíns, og það er ekki leyfilegt, nema hvað. Nígería er kapítuli út af fyrir sig. Flest árin síðan 1960, þegar Nígería fékk sjálfstæði, hafa einræðisstjórnir hersins stýrt landinu með illum afleiðingum, en nú er lýðræðisstjórn í landinu í þriðja sinn og hefur setið að völdum síðan 1999. Fyrri lýðræðisskeiðin tvö stóðu stutt, bara nokkur ár. Lífskjör almennings í Nígeríu eru litlu eða engu skárri nú en þau voru 1960: mestur hluti olíugróðans er rokinn út í veður og vind (og þá ekki sízt inn á erlenda bankareikninga einræðisherranna og einkavina þeirra). Bandaríkin eru eina óskoraða lýðræðisríkið á listanum. Olíulindir Sáda eru sýnu mestar. Þær eru nú metnar á 263 milljarða tunna og taldar munu endast í 73 ár enn. Olíuauður næstu fjögurra landa á listanum, með Íran og Írak fremst í flokki, er mun meiri í heild en Sáda, og hann er talinn munu endast þeim í meira en hundrað ár. Írakar eru hálfdrættingar á við Sáda, og má af því ráða mikilvægi beggja landa í augum Bandaríkjastjórnar. Olíulindir Bandaríkjanna eru á hinn bóginn ekki nema einn tíundi af olíulindum Sáda og fimmtungur af olíulindum Íraka, og þær eru nú ekki taldar munu endast nema í ellefu ár í viðbót. (Þessar tölur eru allar sóttar til olíurisans British Petroleum.) Endingartölur um olíu hneigjast að vísu til að standa í stað gegnum tímann, því að menn eru alltaf að bora nýjar holur og finna nýjar lindir í stað annarra, sem tæmast, en ýmislegt er þó talið benda til þess nú, að áætlaður endingartími olíulinda Bandaríkjanna og annarra landa muni styttast enn á næstu árum, enda þótt nýjar lindir kunni að finnast t.d. í iðrum Alaska. Þessar tölur ýta undir þrálátar grunsemdir um það, að höfuðtilgangur Bandaríkjastjórnar með stríðinu í Írak sé að tryggja Bandaríkjunum áfram aðgang að ódýrri olíu þar eystra. Ef Bush forseti stefndi að því að draga úr olíunotkun heima fyrir, væri e.t.v. minni ástæða til tortryggni. En Bush hefur engin áform um slíkt. John Kerry, frambjóðandi demókrata, hefur hins vegar kynnt áætlun um að leysa Bandaríkin undan þörfinni fyrir innflutta olíu innan tíu ára, svo að hægt sé að stokka spilin í Austurlöndum nær upp á nýtt. Forsetinn og varaforsetinn koma báðir úr innsta hring olíugeirans. Þeir lifa og hrærast í heimi olíuframleiðenda. ,,Ég kalla olíu úrgang andskotans", sagði Pérez Alfonso, einn af stofnendum Samtaka olíuútflutningslanda (OPEC), strax árið 1975. ,,Hún er plága. Sjáið vitfirringuna: spillingu, bruðl, almannaþjónustu í upplausn. Og skuldir – skuldir, sem við þurfum að burðast með um mörg ókomin ár." Bandaríkjamenn og Norðmenn hafa komizt hjá slíkum hörmungum. Gömul lýðræðisskipan beggja landa girti fyrir innanlandsátök um gullið svarta. Svo lengi sem olíulindirnar endast og olíurentan heldur áfram að streyma inn á reikninga valdahafanna, munu friður og lýðræði eiga undir högg að sækja í Arabalöndum og öðrum olíulöndum.