Lífið

Haustlaukar blómstra upp úr snjó

Tími haustlaukanna er kominn en tímabilið hefst í september og lýkur í nóvember. Október virðist vera aðaltíminn til að setja niður laukana og sá tími sem flestir nota til verksins. Misjafnt er eftir tegund laukanna hversu langt niður í jörðina á að gróðursetja en yfirleitt eru þær upplýsingar að finna á pakkningunni sem þeir koma í og mikilvægt er að lesa þær. Hægt er að koma laukunum fyrir í beðum en einnig í blómakerjum og henta lágvaxnar plöntur betur þar. Hinir hefðbundnu túlípanar eru langvinsælastir ásamt krókusum og hægt er að fá þá á tilboði marga saman í pakka. Hægt er að raða allavega laukum saman en hafa skal það í huga að ekki blómstra þeir allir á sama tíma. Krókusinn blómstrar fyrstur, í apríl; páskaliljurnar í apríl eða maí en túlípanarnir í maí til júní. Einnig er misjafnt hversu lengi plönturnar standa í blóma en rósatúlípaninn er sá sem stendur lengst og blómstar hann eins og rós. Vetrargosi er líka skemmtileg planta sem blómstrar snemma, hann er lágvaxinn og hvítur og er mjög fallegt að sjá hann koma blómstrandi upp úr snjónum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×