
Konur um allan heim hylla Valentino þar sem hann hannar fáguð föt fyrir konur sem hugsa um útlitið. Næsta vor geta ástkonur Valentino klæðst fallegum fötum sem eru afskaplega kvenleg og getur hvaða Hollywood-stjarna sem er látið sjá sig í þeim.
Valentino kynnti fyrstu fatalínuna sína árið 1962 og hefur síðan reynt að hlúa að sambandi sínu við kóngafólk, leikkonur og hvaða dömur sem eru mikið í sviðljósinu. Og Valentino er líka rausnarlegur þar sem hann býður þessum vinum sínum og kunningjum stundum í frí á snekkju sinni þar sem fræga fólkið fær frí frá aðgangshörðum ljósmyndurum.
Þó að Valentino sé einn af þeim fremstu á sínu sviði vakti tískusýningin Rive Gauche frá Yves Saint Laurent mesta athygli. Þar var hönnuðurinn efnilegi Stefano Pilati að stíga sín fyrstu skref.
Pilati var undirmaður Tom Ford hjá Yves Saint Laurent en þegar Ford hætti hjá fyrirtækinu tók Pilati við þó að margir frægir hönnuðir, eins og Alexander McQueen, hafi haft augastað á starfinu. Pilati er 38 ára og hefur nokkuð frjálsar hendur hjá Yves Saint Laurent, en herra Saint Laurent er oft talinn faðir nútímatísku.
Pilati sýndi afskaplega kvenlega og klassíska tísku með ögrandi keim á tískuvikunni í París.







