Lífið

Eldhúsið mitt er með sál

"Eldhúsið mitt er eldgamalt og með mikla sál. Það er á dagskránni að taka það í gegn en ég hef ekki lagt í það því það er svo fínt eins og það er," segir Lára Sveinsdóttir leikkona. "Þar er kaffivélin mín og hrærivélin sem við fengum í brúðargjöf í sumar og hefur bjargað okkur þegar gesti ber að garði. Við reynum stundum að baka brauð og þá er voða gott að hnoða deigið í hrærivélinni því það sparar tíma." Lára viðurkennir að sér hafi brugðið þegar hún kom fyrst inn í eldhúsið." Dúkurinn á veggnum er eldgamall, gulur og skræpóttur og mér brá svolítið þegar ég sá hann fyrst en nú myndi ég aldrei tíma að taka hann niður því hann er svo sérstakur." Það er önnur ástæða til þess að Láru liggur ekki á að láta breyta eldhúsinu. "Ég er ekki mjög há í loftinu og því er hæðin á borðunum alveg passleg fyrir mig. Maðurinn minn er frekar stór og borðin eru of lág fyrir hann en hann þarf þá bara minna að gera í eldhúsinu í staðinn. Annars er hann duglegur að vaska upp." Partí enda oft inni í eldhúsi sem er reyndar svolítið bagalegt því svefnherbergi nágrannans er beint fyrir neðan. "Við reynum að draga partíin aftur inn í stofu en þetta er toppeldhús til að fá vinkonurnar í kaffi." Lára er að leika í Úlfhamssögu sem sýnd er í Hafnarfjarðarleikhúsinu. Leikritið var frumsýnt síðastliðinn sunnudag og frumsýningarpartíið endaði að sjálfsögðu í eldhúsinu hjá Láru.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×