Skjöl og gögn í dagsljósið 20. október 2004 00:01 Forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi; Össur Skarphéðinsson, Steingrímur J. Sigfússon og Guðjón A. Kristjánsson, hafa borið fram þingsályktunartillögu sem felur í sér að nafn Íslands verði ekki lengur á lista Bandaríkjamanna og Breta yfir hinar svokölluðu "staðföstu" eða "viljugu" þjóðir er studdu innrás þeirra í Írak í mars í fyrra. Jafnframt gerir tillagan ráð fyrir að skipuð verði nefnd þingmanna til að leiða í ljós aðdraganda og ástæður þess að ríkisstjórnin ákvað að lýsa yfir stuðningi við innrásina án samráðs við utanríkismálanefnd Alþingis. Líklega hefði verið skynsamlegra af þingmönnunum að leggja megináherslu á seinni lið tillögunnar og flytja hann sem sjálfstætt þingmál. Óhugsandi er að stjórnarliðar á Alþingi geti samþykkt að afturkalla stuðninginn við innrásina enda má segja að það jafngilti vantrausti á leiðtoga ríkisstjórnarinnar, forsætisráðherra og utanríkisráðherra. Aftur á móti má færa fyrir því málefnaleg rök, óháð afstöðu til Íraksmálsins að öðru leyti, að gera beri opinber öll skjöl og gögn um aðdraganda stuðningsyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar. Samþykkt um það fæli ekki í sér fyrir fram afstöðu eða vantraust. Sé vilji fyrir hendi og sannfæring um að ekkert sé á ferðinni sem ekki þoli dagsljósið ætti að geta náðst um þetta atriði þverpólitísk samstaða. Málsmeðferð ríkisstjórnarinnar varðandi stuðninginn við innrásina í Írak í fyrravor var öll hin einkennilegasta. Sama dag og innrásin hófst fengu Íslendingar fregnir af því að blaðafulltrúi Bandaríkjaforseta hefði lýst því yfir á fundi með fréttamönnum í Hvíta húsinu að Ísland væri eitt þeirra ríkja sem lýst hefðu sérstökum stuðningi við innrásina. Þegar farið var að leita skýringa á þessu hér heima staðfestu þáverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, að þeir hefðu veitt samþykki sitt fyrir því að Ísland ætti aðild að hernaðaraðgerðunum með þessum hætti. Hvorki þá né síðar hefur verið upplýst um aðdraganda málsins, um það hvaða upplýsingar eða tilmæli lágu ákvörðuninni til grundvallar og með hvaða hætti hún var tekin. Ekki liggur fyrir að ákvörðunin hafi verið tekin með formlegum hætti á ríkisstjórnarfundi eða að haldnir hafi verið fundir í þingflokkum stjórnarflokkanna til að kynna málið eða fá samþykki fyrir því. Engar skýringar hafa heldur fengist á því af hverju sniðgengið var ákvæði 24. greinar þingskaparlaga um að ríkisstjórn beri ávallt undir utanríkismálanefnd Alþingis "meiri háttar utanríkismál" eins og þetta hlýtur að teljast. Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, sagði á Alþingi 7. október í fyrra að ríkisstjórnin hefði lýst yfir stuðningi við innrásina í Írak "að vandlega íhuguðu máli". Ráðherrann skuldar Alþingi nánari greinargerð um þessar íhuganir. Taka ber undir með stjórnarandstöðunni á Alþingi að leggja ber fram "öll gögn stjórnvalda um Íraksmálið, þar með taldar fundargerðir, minnisblöð og greinargerðir, sem varpað geta ljósi á þetta ferli", eins og það er orðað í þingsályktunartillögunni. Í því sambandi er rétt að hafa í huga að sambærileg gögn bandarískra og breskra stjórnvalda hafa verið gerð opinber. Ekkert réttlætir að leyndarhjúpur sé vafinn um þetta mál. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Guðmundur Magnússon Mest lesið Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Vatnamálalögin og Hvammsvirkjun: Almannaheill ? Mörður Árnason Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun Ekkert samráð – ekkert traust Björg Eva Erlendsdóttir Skoðun Spurningar og svör um Evrópumál Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun
Forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi; Össur Skarphéðinsson, Steingrímur J. Sigfússon og Guðjón A. Kristjánsson, hafa borið fram þingsályktunartillögu sem felur í sér að nafn Íslands verði ekki lengur á lista Bandaríkjamanna og Breta yfir hinar svokölluðu "staðföstu" eða "viljugu" þjóðir er studdu innrás þeirra í Írak í mars í fyrra. Jafnframt gerir tillagan ráð fyrir að skipuð verði nefnd þingmanna til að leiða í ljós aðdraganda og ástæður þess að ríkisstjórnin ákvað að lýsa yfir stuðningi við innrásina án samráðs við utanríkismálanefnd Alþingis. Líklega hefði verið skynsamlegra af þingmönnunum að leggja megináherslu á seinni lið tillögunnar og flytja hann sem sjálfstætt þingmál. Óhugsandi er að stjórnarliðar á Alþingi geti samþykkt að afturkalla stuðninginn við innrásina enda má segja að það jafngilti vantrausti á leiðtoga ríkisstjórnarinnar, forsætisráðherra og utanríkisráðherra. Aftur á móti má færa fyrir því málefnaleg rök, óháð afstöðu til Íraksmálsins að öðru leyti, að gera beri opinber öll skjöl og gögn um aðdraganda stuðningsyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar. Samþykkt um það fæli ekki í sér fyrir fram afstöðu eða vantraust. Sé vilji fyrir hendi og sannfæring um að ekkert sé á ferðinni sem ekki þoli dagsljósið ætti að geta náðst um þetta atriði þverpólitísk samstaða. Málsmeðferð ríkisstjórnarinnar varðandi stuðninginn við innrásina í Írak í fyrravor var öll hin einkennilegasta. Sama dag og innrásin hófst fengu Íslendingar fregnir af því að blaðafulltrúi Bandaríkjaforseta hefði lýst því yfir á fundi með fréttamönnum í Hvíta húsinu að Ísland væri eitt þeirra ríkja sem lýst hefðu sérstökum stuðningi við innrásina. Þegar farið var að leita skýringa á þessu hér heima staðfestu þáverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, að þeir hefðu veitt samþykki sitt fyrir því að Ísland ætti aðild að hernaðaraðgerðunum með þessum hætti. Hvorki þá né síðar hefur verið upplýst um aðdraganda málsins, um það hvaða upplýsingar eða tilmæli lágu ákvörðuninni til grundvallar og með hvaða hætti hún var tekin. Ekki liggur fyrir að ákvörðunin hafi verið tekin með formlegum hætti á ríkisstjórnarfundi eða að haldnir hafi verið fundir í þingflokkum stjórnarflokkanna til að kynna málið eða fá samþykki fyrir því. Engar skýringar hafa heldur fengist á því af hverju sniðgengið var ákvæði 24. greinar þingskaparlaga um að ríkisstjórn beri ávallt undir utanríkismálanefnd Alþingis "meiri háttar utanríkismál" eins og þetta hlýtur að teljast. Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, sagði á Alþingi 7. október í fyrra að ríkisstjórnin hefði lýst yfir stuðningi við innrásina í Írak "að vandlega íhuguðu máli". Ráðherrann skuldar Alþingi nánari greinargerð um þessar íhuganir. Taka ber undir með stjórnarandstöðunni á Alþingi að leggja ber fram "öll gögn stjórnvalda um Íraksmálið, þar með taldar fundargerðir, minnisblöð og greinargerðir, sem varpað geta ljósi á þetta ferli", eins og það er orðað í þingsályktunartillögunni. Í því sambandi er rétt að hafa í huga að sambærileg gögn bandarískra og breskra stjórnvalda hafa verið gerð opinber. Ekkert réttlætir að leyndarhjúpur sé vafinn um þetta mál.