Ráðvillt þjóð kýs sér leiðtoga 1. nóvember 2004 00:01 Af hverju eru þeir Bush og Kerry svo jafnir? Hvernig stendur á því að Bandaríkjamenn eiga erfitt með að gera upp hug sinn í máli sem virðist svo augljóst? Bush kom umboðslaus í embætti og hefur staðið sig óvenju illa í því nánast hvar sem á það er litið og hvaða mælikvarði notaður er – nema til að ganga erinda þess prósentubrots sem mynda stétt hinna ofsaríku í Ameríku eða stíga í vænginn við kristna öfgamenn þar í landi, sem aðhyllast óhugnanlegan dauðakúltúr. Í efnahagsstjórn var árangurinn methalli á fjárlögum og færri störf en í tíð nokkurs Bandaríkjaforseta; í umhverfismálum er tilvist þessarar stjórnar beinlínis tilræði við framtíð jarðarinnar; í félags- og heilbrigðismálum ráða hagsmunir stórfyrirtækja för; innrásin í Írak leiddi ekki í ljós styrk Bandaríkjamanna heldur veikleika þessarar stjórnar, hofmóð og heimsku, úrræðaleysi og skeytingarleysi um mannréttindi skilgreindra óvina eins og öll mannréttindabrotin í Guantanamo og síðan í Abu Ghraib fangelsinu vitna um. Þetta er hatursframleiðslustjórn. Heimurinn er ótryggari undir forystu þessara manna en hann væri ella – aðferðirnar við að koma á friði í heiminum eiga sér fyrirmyndir hjá apartheid-stjórninni í Ísrael og haldi hún velli verður ástandið í öllum þessum heimshluta eins og það er nú á Gaza-ströndinni. Hafi kappræður Bush og Kerrys leitt eitthvað í ljós þá var það grundvallar gæðamunur. Þetta er eins og að eiga erfitt með að ákveða hvort maður eigi að bjóða væntanlegum matargestum upp á lambalæri eða hrossabjúgu, hvort maður þiggi frímiða á tónleika með Rolling Stones eða Bay City Rollers, hvort maður velur í landsliðið Eið Smára eða einhvern framherja Héraðssambands suður-Langnesinga – hvort maður kýs til forystu Hómer Simpson eða – tja – John Kerry... Það er erfitt að átta sig á sálarástandi Bandaríkjamanna. Okkur hættir til að gleyma því að þarna er þjóð stödd í miðju sorgarferli eftir ótrúlega árás sem hún varð fyrir, og á sér naumast hliðstæðu í seinni tíma sögu – þeir voru hæfðir í hjartastað. Þessi árás hlaut að leiða til stríðs og fyrir vikið reyndist valdaklíkunni í kringum þá Cheney, Rumsfeldt og Wolfowitz auðvelt að teyma þjóðina út í bara eitthvað stríð. Eina skilyrðið sem þjóðin setti var að stríðið væri við "þá" – einhverja óskilgreinda "hina" sem hefðu til að bera nægileg einkenni til að svara til hugmynda um óvininn. Það voru ekki miklar kröfur, nægði að aðhyllast islam, vera með skegg og ögra Bandaríkjunum. Enn er langt í land með að undið verði ofan af allri þeirri vitleysu sem almenningur í Bandaríkjunum trúir um málavöxtu í Austurlöndum. Enn virðist til dæmis meirihluti þjóðarinnar halda að tengsl hafi verið milli al Kaída og stjórnar Baath-flokksins í Írak, þótt einu tengslin sem fundist hafi séu milli bin Laden-fjölskyldunnar og Bush-fjölskyldunnar. Enda Osama mættur á lokasprettinum ásamt sjálfum the Terminator til að leggja Bush lið – ásamt auglýsingaherferð sem lýsir sér í úlfahjörð sem virðist í þann veginn að stökkva út úr sjónvarpinu og inn í stofu. Bandaríkjamenn eru ráðvillt þjóð. Öllum gildum sýnist snúið á hvolf. Kerry er sagður of góður, of fróður, of víðlesinn – og kann frönsku sem sagt er ófyrirgefanlegt. Og engu líkara en að Bush feli sitt rétta andlit á bak við öll mismælin sem virðast falla vel í kramið hjá hluta landsmanna. Skilaboðin eru þau að hann verði fyrir vikið "ákveðinn" – "staðfastur", láti með öðrum orðum ekki þvælast fyrir sér hæfileika til að tileinka sér staðreyndir, ályktunarhæfni, mannúð og annað það sem hefðbundið er að telja til mannkosta, einkum hjá þeim sem ráða málum. Bush gefur sig beinlínis út fyrir að vera vitgrannur maður sem bítur í sig eitthvað og hvikar ekki frá því. Þar með virðist hann heppilegur maður til að veita þjóðinni útrás fyrir þá miklu reiði og særða stolt sem ellefti september hafði í för með sér. Kerry aftur á móti lagt það til lasts að vera "reality based". Við hin bíðum í ofvæni og vonum hins vegar að á endanum velji þeir vitið fram yfir heiftina; veruleikann fram yfir hina trúarlegu heimsmynd – við getum bara beðið, við bíðum og biðjum.. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Örvæntingarfullur maður sker út grasker Þórður Snær Júlíusson Skoðun Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Sjálfstæðisflokkur hækkar kostnað heimilanna Kristrún Frostadóttir Skoðun Gerum þetta að kosningamáli Ágúst Ólafur Ágústsson Skoðun Ölmusuhagkerfið Unnur Rán Reynisdóttir Skoðun Eru vaxtarmörkin vandinn? Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Fyrirmyndarstjórn Viðreisnar og Samfylkingar á Reykjavíkurborg? Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Búum til „vandamál“ – leysum það með samræmdum prófum Árelía Eydís Guðmundsdóttir Skoðun
Af hverju eru þeir Bush og Kerry svo jafnir? Hvernig stendur á því að Bandaríkjamenn eiga erfitt með að gera upp hug sinn í máli sem virðist svo augljóst? Bush kom umboðslaus í embætti og hefur staðið sig óvenju illa í því nánast hvar sem á það er litið og hvaða mælikvarði notaður er – nema til að ganga erinda þess prósentubrots sem mynda stétt hinna ofsaríku í Ameríku eða stíga í vænginn við kristna öfgamenn þar í landi, sem aðhyllast óhugnanlegan dauðakúltúr. Í efnahagsstjórn var árangurinn methalli á fjárlögum og færri störf en í tíð nokkurs Bandaríkjaforseta; í umhverfismálum er tilvist þessarar stjórnar beinlínis tilræði við framtíð jarðarinnar; í félags- og heilbrigðismálum ráða hagsmunir stórfyrirtækja för; innrásin í Írak leiddi ekki í ljós styrk Bandaríkjamanna heldur veikleika þessarar stjórnar, hofmóð og heimsku, úrræðaleysi og skeytingarleysi um mannréttindi skilgreindra óvina eins og öll mannréttindabrotin í Guantanamo og síðan í Abu Ghraib fangelsinu vitna um. Þetta er hatursframleiðslustjórn. Heimurinn er ótryggari undir forystu þessara manna en hann væri ella – aðferðirnar við að koma á friði í heiminum eiga sér fyrirmyndir hjá apartheid-stjórninni í Ísrael og haldi hún velli verður ástandið í öllum þessum heimshluta eins og það er nú á Gaza-ströndinni. Hafi kappræður Bush og Kerrys leitt eitthvað í ljós þá var það grundvallar gæðamunur. Þetta er eins og að eiga erfitt með að ákveða hvort maður eigi að bjóða væntanlegum matargestum upp á lambalæri eða hrossabjúgu, hvort maður þiggi frímiða á tónleika með Rolling Stones eða Bay City Rollers, hvort maður velur í landsliðið Eið Smára eða einhvern framherja Héraðssambands suður-Langnesinga – hvort maður kýs til forystu Hómer Simpson eða – tja – John Kerry... Það er erfitt að átta sig á sálarástandi Bandaríkjamanna. Okkur hættir til að gleyma því að þarna er þjóð stödd í miðju sorgarferli eftir ótrúlega árás sem hún varð fyrir, og á sér naumast hliðstæðu í seinni tíma sögu – þeir voru hæfðir í hjartastað. Þessi árás hlaut að leiða til stríðs og fyrir vikið reyndist valdaklíkunni í kringum þá Cheney, Rumsfeldt og Wolfowitz auðvelt að teyma þjóðina út í bara eitthvað stríð. Eina skilyrðið sem þjóðin setti var að stríðið væri við "þá" – einhverja óskilgreinda "hina" sem hefðu til að bera nægileg einkenni til að svara til hugmynda um óvininn. Það voru ekki miklar kröfur, nægði að aðhyllast islam, vera með skegg og ögra Bandaríkjunum. Enn er langt í land með að undið verði ofan af allri þeirri vitleysu sem almenningur í Bandaríkjunum trúir um málavöxtu í Austurlöndum. Enn virðist til dæmis meirihluti þjóðarinnar halda að tengsl hafi verið milli al Kaída og stjórnar Baath-flokksins í Írak, þótt einu tengslin sem fundist hafi séu milli bin Laden-fjölskyldunnar og Bush-fjölskyldunnar. Enda Osama mættur á lokasprettinum ásamt sjálfum the Terminator til að leggja Bush lið – ásamt auglýsingaherferð sem lýsir sér í úlfahjörð sem virðist í þann veginn að stökkva út úr sjónvarpinu og inn í stofu. Bandaríkjamenn eru ráðvillt þjóð. Öllum gildum sýnist snúið á hvolf. Kerry er sagður of góður, of fróður, of víðlesinn – og kann frönsku sem sagt er ófyrirgefanlegt. Og engu líkara en að Bush feli sitt rétta andlit á bak við öll mismælin sem virðast falla vel í kramið hjá hluta landsmanna. Skilaboðin eru þau að hann verði fyrir vikið "ákveðinn" – "staðfastur", láti með öðrum orðum ekki þvælast fyrir sér hæfileika til að tileinka sér staðreyndir, ályktunarhæfni, mannúð og annað það sem hefðbundið er að telja til mannkosta, einkum hjá þeim sem ráða málum. Bush gefur sig beinlínis út fyrir að vera vitgrannur maður sem bítur í sig eitthvað og hvikar ekki frá því. Þar með virðist hann heppilegur maður til að veita þjóðinni útrás fyrir þá miklu reiði og særða stolt sem ellefti september hafði í för með sér. Kerry aftur á móti lagt það til lasts að vera "reality based". Við hin bíðum í ofvæni og vonum hins vegar að á endanum velji þeir vitið fram yfir heiftina; veruleikann fram yfir hina trúarlegu heimsmynd – við getum bara beðið, við bíðum og biðjum..