Innlent

Vinstri grænir á flugi

Fylgi Samfylkingar og Vinstri grænna eykst, en fylgi Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Frjálslyndra dalar, samkvæmt niðurstöðu skoðanakönnunar sem Fréttablaðið lét framkvæma á laugardaginn. Samkvæmt skoðanakönnunni fékk Framsóknarflokkurinn 12,3 prósent stuðning. 30,3 prósent sögðust myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef kosningar færu fram nú. Frjálslyndir fengju 3,1 prósent. 35,1 prósent sögðust myndu kjósa Samfylkinginu og 18,2 prósent sögðust myndu kjósa Vinstri græna. Tæpt prósent þeirra sem tóku afstöðu til spurningarinnar sagðist myndu kjósa eitthvað annað. Ef þetta væri fylgi flokkana í kosningum fengi Framsóknarflokkurinn átta menn kjörna, Sjálfstæðisflokkurinn fengi 19 þingmenn, Frjálslyndir tvo þingmenn, Samfylking fengi 23 þingmenn og Vinstri grænir ellefu. Eins og oftast áður er munur á stuðningi kynjanna við Sjálfstæðisflokk. Um 34 prósent karla sögðust styðja Sjálfstæðisflokkinn en fylgi kvenna var átta prósentustigum minna. Eins er nokkur munur á stuðningi karla og kvenna við Samfylkingu. Um 33 prósent karla segjast styðja Samfylkingu en um 38 prósent kvenna. Einnig er nokkur munur á stuðningi flokkanna eftir því hvort kjósendur búa á höfuðborgarsvæðinu eða utan þess. Þá fær Framsóknarflokkurinn tæplega 15 prósenta fylgi á landsbyggðinni en rétt rúmlega tíu prósent á höfuðborgarsvæðinu. Sjálfstæðisflokkurinn sækir fylgi sitt þó frekar til höfuðborgarsvæðisins, þar sem hann hefur rétt rúmlega 33 prósenta fylgi á móti rúmlega 26 prósenta fylgi á landsbyggðinni. Úrtakið í könnuninni var 800 manns. Það skiptist jafnt milli kynja og hlutfallslega eftir kjördæmum. Spurt var "Hvaða flokk myndir þú kjósa ef þingkosningar færu fram nú?" 52,8% prósent aðspurðra tóku afstöðu til spurningarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×