Innlent

Ekki lengur leynd hjá ESSO

Framlög Olíufélagsins ehf. og forvera þess, Olíufélagsins hf., til stjórnmálaflokka og ýmissa stjórnmálaframboða á árunum 1994 til 2004 voru samtals 21,6 milljónir króna. Í tilkynningu frá ESSO segir að framlög vegna sveitarstjórnarmála séu meðtalin í þessari upphæð og eru þau fjórðungur af heildartölunni. Inni í þessari upphæð eru einnig greiðslur fyrir auglýsingar í blöðum og tímaritum stjórnmálaflokka og stjórnmálaframboða þar sem þjónusta Olíufélagsins er kynnt. Í fyrra og það sem af er þessu ári nema heildarframlög til stjórnmálaflokka samtals 2,1 milljón króna og er sú fjárhæð innifalin í ofangreindri heildarupphæð. Nýir eigendur komu að Olíufélaginu 29. maí 2003. ESSO bendir á til samanburðar að framlög Olíufélagsins til íþróttamála, skólamála, menningarmála, líknarmála og annarra þjóðþrifamála námu samtals 229,5 milljónum króna á sama tímabili eða tífalt hærri upphæð. Í yfirlýsingu frá Hjörleifi Jakobssyni, forstjóra Olíufélagsins segrir að Olíufélagið muni ekki gefa upp frekari sundurliðun á ofangreindum framlögum eða til hverra þau voru veitt, enda líti Olíufélagið á öll þessi framlög sem trúnaðarmál milli viðkomandi aðila. Hinsvegar hafi Olíufélagið ákveðið að héðan í frá verði gefnar nánari upplýsingar um framlög sem félagið muni veita.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×