Fastir pennar

Upphaf endaloka Reykjavíkurlistans

Embætti borgarstjórans í Reykjavík er senn 100 ára gamalt. Í höndum Sjálfstæðisflokksins og fyrirrennara hans varð það valdamesta embætti landsins. Völd þess hafa legið í því að borgarstjóri er í fararbroddi meirihluta samhentra borgarfulltrúa. Í öllum öðrum stjórnarstofnunum landsins þurfa menn að mynda meirihluta með hrossakaupum eftir kosningar. Í Reykjavík vissu menn að hverju þeir gengu í kosningum: Annars vegar var Sjálfstæðisflokkurinn undir forystu ákveðinnar þekktrar persónu, hins vegar andlitslausir andstöðuflokkarnir, sem þurftu að fengnum meirihluta að koma sér saman um framkvæmdastjóra til að hrinda því í framkvæmd sem þeir kæmu sér saman um að loknu karpi og verslun með stefnu, stöður og sporslur. Glundroðakenningin Meirihluti Reykvíkinga kaus jafnan að kaupa ekki köttinn í sekknum – utan einu sinni, 1978. Glundroðakenningin – áróður um þá óvissu sem tæki við ef sjálfstæðismenn yrðu í minnihluta - verkaði jafnan í borgarstjórnarkosningum. Í þeim kusu borgarbúar eftir allt öðru mynstri en í alþingiskosningum. Sjálfstæðismenn höfðu þó ekki alltaf meirihluta atkvæða – dreifing atkvæða hinna sundurlyndu vinstri flokka var löngum þeim í hag, þar til 1978 að Birgir Ísleifur missti meirihlutann með 58 atkvæða mun. Vinstri flokkarnir riðu ekki feitum hesti frá þessu kjörtímabili sínu við stjórnvöl borgarinnar. Þeir réðu ópólitískan verkfræðing sem borgarstjóra – þar með fór öll sú reisn og glæsileiki sem yfir embættinu hvílir forgörðum. Þeir reyndu að yfirfæra glamúr embættisins yfir á forseta borgarstjórnar – en tókst ekki, enda átti það embætti að rótera milli þeirra. Í næstu kosningum steinlágu þeir fyrir Davíð, sem enn á ný hóf embættið til þeirrar höfðinglegu virðingar, sem einbeittur foringi gefur því. En við brottför Davíðs hófst endalaus vandræðagangur í liði Sjálfstæðisflokksins. Sigur R-listan 1994 Skoðanakönnun sem nokkrir ungir menn létu gera í desember 1993 leiddi í ljós að sameiginlegur listi vinstri flokkanna, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags, ásamt Framsókn undir forystu kvennalistakonunnar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem borgarstjóraefnis, hefði möguleika á að vinna meirihluta í borginni. Í samningaumræðum sem á eftir fóru reyndu flokkshestarnir ákaft að endurtaka mistökin frá 1978 og gersneyða borgarstjóraembættið að innihaldi; borgarstjórinn yrði bara toppfígúra; Ingibjörg gaf ekki kost á öðru en að embættið héldi öllum þeim völdum, sem sjálfstæðismenn höfðu gætt það í tímans rás. Hún hafði sigur, listi var settur saman með prófkjöri með nýstárlegum hætti, hann bar með sér grasrótarbrag, laus við hrossakaup flokkshagsmuna. Og R-listinn sigraði undir forystu Ingibjargar Sólrúnar. Borgarstjórnarkosningarnar 1998 fóru fram í mikilli pólitískri óvissu. Vinstri hliðin var að endurskipuleggja sig í Samfylkingu og VG, Framsókn var hinsvegar komin í ríkisstjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn. R-listinn lofaði að endurskipuleggja sig að loknum kosningum í Regnbogasamtök, einhuga fylkingu, gula, rauða, græna og bláa, sem stæði að baki listanum.Í þjóðsögum segir að sá sem komist undir endann á regnboganum hljóti eina ósk. Regnbogi R-listans reyndist álíka haldgóður. Auðvitað hafði frammistaða R-listans á undangengnu kjörtímabili sitt að segja um úrslit þessara kosninga, en hitt réði sennilega úrslitum að Ingibjörg Sólrún breiddi vængi sína yfir þær sprungur sem voru að myndast og víkka í hinu pólitíska landslagi. Höfði lamið við stein Fyrir kosningarnar 2002 höfðu vinstri flokkarnir farið í gegnum hina pólitísku skilvindu og voru nú fyllilega aðgreindir í VG og Samfylkingu. Enn lamdi þó R-listinn höfðinu við steininn og þóttist vera einn flokkur í stað þess að vera kosningabandalag þriggja flokka. Af Regnboganum var eftir sá stubbur, að Ingibjörg Sólrún fékk tvö sæti sem óháður aðili, þótt allir vissu að hún tilheyrði orðið Samfylkingu. Og hinn þríeini flokkur vissi vel að Ingibjörg Sólrún var flotholtið sem hann flaut á til áframhaldandi valda. Henni hafði tekist að varpa ljóma á borgarstjóraembættið til jafns við glæstustu foringja Sjálfstæðisflokksins áður á tíð. Auglýsingastofa var fengin til að hanna kosningabaráttuna. Öllum dvergunum sjö var komið undir pilsfald Ingibjargar og hún ein trónaði í heilsíðuauglýsingum og spjallþáttum loftmiðlanna síðustu vikur fyrir kosningar. Hún ætlaði að gera þetta og hún ætlaði að gera hitt á næsta kjörtímabili og enginn þyrfti að efa að yrði hún kosin stæði hún vaktina á enda. Enn vann R-listinn sigur – að vísu með dyggum stuðningi Sjálfstæðisflokksins, sem enn á ný var í pólitískum sjálfsmorðshugleiðingum í borginni. Prentsvertan var ekki meir en svo þornuð á heilsíðuauglýsingunum þegar Ingibjörg ákvað að slá til og hlýða kalli Samfylkingarinnar, sem var fram sett með þeim hætti að hún átti að fara fram í vonlaust sæti í þingkosningum, en vera samt forsætisráðherraefni flokksins og halda áfram sem borgarstjóri. Ofmetnaðist Ingibjörg Sólrún? Hvað hafði gerst? Hafði hún ofmetnast eða gerði hún sér ekki grein fyrir því að R-listinn var nú ekki neinn regnbogi lengur, heldur höfðu litirnir aðskilist og samstarfsflokkarnir í borginni gátu ekki þolað að hún nýtti sér vinsældir sínar þar til að reyta af þeim fylgið á landsvísu. Endirinn varð sá að hún hrökklaðist úr embætti borgarstjóra, efldi sennilega eitthvað fylgi Samfylkingarinnar, en sat eftir með sárt ennið að kosningum loknum, varaþingmaður og óbreyttur borgarfulltrúi. Eftirmaður var fenginn Þórólfur Árnason. En hann var ekki pólitískur leiðtogi, bara framkvæmdastjóri þriggja eða fjögurra hrossakaupaafla án eigin pólitísks umboðs. Vel liðinn, en ekkert umfram það. Eftir stjórnarkreppu undanfarinna daga stóð R-listinn frammi fyrir ýmsum kostum. Enginn vafi er á að sá glæsilegasti og besti hefði verið að bjóða Degi Eggertssyni, hinum óflokksbundna, embættið. Hann er að vísu tveimur árum yngri en Davíð Oddsson var þegar hann varð borgarstjóri 34 ára gamall, en örugglega með miklu meiri reynslu í pólitík og félagsmálum og ábyrgri þátttöku í stjórn borgarinnar – ekki gaspri og upphrópunum í stjórnarandstöðu. En, nei. Stjórnmálaskýrendur segja að Halldór Ásgrímsson hafi látið það boð út ganga að nú skuli borgin hætta að ala upp framtíðarforingja fyrir Samfylkinguna. Og tengdasonur Halldórs Ásgrímssonar í stjórn Framsóknarfélags Reykjavíkur-norðurkjördæmis krafðist þess að leiðtoginn yrði fenginn utan frá. Það hefur jafnan verið bölvun vinstri manna að reyna að kæfa í fæðingu alla sem hafa burði til forystuhlutverks, hver fyrir öðrum, og jafnvel í eigin röðum. R-listinn hafnaði að vísu þessari kröfu Framsóknar og ákvað í staðinn að velja þann úr eigin röðum sem minnstur styrr stæði um. Hefur varið klúðrið Steinunni Valdísi Óskarsdóttur þekki ég ekki af öðru en framkomu hennar í fjölmiðlum sem formanns skipulagsnefndar. Þar hefur hún þurft að verja hvert klúðrið á fætur öðru að undanförnu og kemur mér fyrir sjónir sem næstmesti kerfiskallinn í borgarstjórnarhópnum á eftir Alfreð. Af þessu dreg ég þá ályktun að það sé samdóma álit borgarstjórnarhópsins að með Steinunni Valdísi í borgarstjóraembættinu geti þeim – með smáheppni – tekist að skrönglast út kjörtímabilið á enda. Eftir það býður hver flokkur fram fyrir sig. Steinunni verður tíðrætt um að það sé seigt í R-listanum límið. Ingibjörg Sólrún var það lím sem hélt fyrirbærinu saman frá upphafi. Nú er R-listinn úlfabæli og límið sem heldur hópnum saman er hrært saman af völdum, stöðum, bitlingum og fyrirgreiðslu. Báðir litlu flokkarnir voru í kreppu undanfarinna daga búnir að hafa samband við Sjálfstæðisflokk og kanna möguleikana á nýrri límhræru og nýjum meirihluta. Og um þetta munu næstu borgarstjórnarkosningar snúast. Þá gæti svo farið að VG, Framsókn eða Frjálslyndir réðu úrslitum um meirihluta, komist í svipaða aðstöðu og Framsókn í Kópavogi undanfarin kjörtímabil, og þá mundi margur feitur bitinn falla þeim flokki í skaut, sem í oddaaðstöðuna kemst og margur hrósa happi að vera laukur í litlum hópi. Aldrei aftur Og þó. Eins og þjóðinni þykir vænt um embætti forseta Íslands og sárnar þegar lítið er gert úr því eða það niðurlægt, þykir Reykvíkingum vænt um borgarstjóraembættið, kunna því illa að það sé rýrt að innihaldi og reisn, og munu ekki þola að það gangi kaupum og sölum. Reykvíkingar munu áfram vilja fá að kjósa sinn borgarstjóra og liðshóp hans, en ekki eiga um það eftirkaup að kosningum loknum hver embættið hreppir. Þótt R-listinn eigi eftir að tóra enn um sinn má um hann segja eins og í dægurlagatextanum alkunna um Nínu: að "aldrei, aldrei, aldrei aftur/ aldrei, aldrei, aldrei aftur" - mun hann bjóða fram sem pólitísk eining.





×