Reiðareksmenn 15. nóvember 2004 00:01 Einu sinni á kjallaraárum okkar hjóna vakti konan mín mig um miðja nótt og færði mér þau tíðindi að hún heyrði ekki betur en að frammi í eldhúsi geisuðu harðvítug átök milli kattanna og skrækjandi rottu. Ég reis upp við dogg, hugsaði mitt ráð og kvað loks upp úrskurðinn: við skulum fara aftur að sofa, kannski verður rottan farin þegar við vöknum næst. Þetta lýsir þeirri óbilandi bjartsýni sem löngum hefur einkennt mig en líka almennu karlmannlegu hugleysi – og tregðu til að grípa til hvimleiðra en nauðsynlegra ráðstafana. Helgi Hálfdanarson hefur búið til gott orð um svona viðbrögð andspænis vá, að láta reka á reiðanum þótt allt stefni í óefni: hann kallaði slíkt fólk reiðareksmenn. Maður verður stundum var við þetta hugarástand andspænis mikilvægasta úrlausnarefni okkar daga: umhverfismálum – þessa undarlegu tregðu jafnvel þótt ekki sé um neinar fórnir að ræða heldur bara aukin þægindi, á borð við það að skipta úr allt of stórum fjallajeppa og í alvöru borgarbíl. Menn treysta sér ekki til að horfast í augu við voðann og bregðast við honum á öllum stigum, einstaklingsbundnum og á þjóðarvísu. Klerkastjórnin í Washington hefur að vísu sérstöðu, sér enga sérstaka þörf á því að bjarga jörðinni því dómsdagur sé hvort sem er á næsta leiti og Jahve búinn að útbúa VIP-kortin handa þeim útvöldu – en við hin sem ekki höfum neinar spurnir af þessum ráðagerðum almættisins en lítum á Guð sem táknmynd lífsaflsins, kjósum frekar lífið – og erum raunverulega "pro-life" – við hljótum að krefjast þess af okkar stjórnvöldum að þau geri allt það sem í þeirra valdi stendur til að stöðva nú þegar hina heimskulegu og ónauðsynlegu losun gróðurhúsalofttegunda. Málflutningi reiðareksmanna má lýsa svona: í fyrsta lagi er hitastig ekkert að hækka; í öðru lagi er það gott að hitastig sé að hækka vegna þess að þá opnast siglingaleiðir fyrir okkur og veðrið batnar; í þriðja lagi er of seint að gera nokkuð við því að hitastig sé að hækka, of dýrt og nær að flytja fólk burt af hættusvæðum. Núverandi umhverfisráðherra, Sigríður Anna Þórðardóttir, hefur til þessa verið atkvæðalítil í starfi. Aðspurð um áhuga sinn á umhverfismálum sagðist hún til dæmis vera frá Siglufirði og hafa yndi af því að fara í berjamó. Það vakti líka athygli og nokkra undrun þegar hún valdi sér á sínum tíma til aðstoðar Harald Johannesen sem hafði verið viðloðandi hinn svokallaða Vef-þjóðvilja - netsíðu ungra manna sem halda mjög fram þeirri hugsjón að hlýnun loftslags af mannavöldum sé með öllu ósannað mál. Á dögunum fékk hinn nýbakaði ráðherra loks tækifæri til að láta að sér kveða á alþjóðavísu þegar hún ávarpaði ráðstefnu vísindamanna í tilefni af útkomu skýrslu um hlýnun andrúmslofts á norðurslóðum. Í skýrslunni er ekki einungis staðhæft að rannsóknir hafi leitt í ljós að þessi hlýnun sé óyggjandi heldur og að hún sé miklu hraðari en vísindamenn óttuðust áður. Fyrrverandi umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, vakti athygli á þessari sömu ráðstefnu fyrir skörulegan málflutning og góða þekkingu á efninu sem hún hafði sýnilega kynnt sér, enda er hún ekki lengur ráðherra og þarf ekki lengur að framfylgja stóriðjustefnu Halldórs Ásgrímssonar. Í setningarræðu sinni var Sigríður Anna hins vegar stödd í hálfgerðum berjamó á Siglufirði. Í ræðunni, sem virtist fremur ætluð til að falla ráðamönnum Bandaríkjanna í geð en að vera í einhverju samhengi við sjálfa ráðstefnuna, sagði íslenski ráðherrann – þvert á niðurstöðu skýrslunnar – að enn væri miklum vafa undirorpið hversu mikil áhrif menn hafi á loftslag og hversu mikið loftslag sé að breytast. Eru áherslur ríkisstjórnarinnar að breytast í umhverfismálum? Sjálfstæðismenn virðast miða alla sína stefnu á alþjóðavísu við að halda uppi atvinnustigi á Suðurnesjum – ber að skoða ræðu umhverfisráðherra í því ljósi, að menn séu að stilla sér upp við hlið Bandaríkjamanna í því að hundsa Kyoto-sáttmálann? Eða er það hlutskipti ráðherrans að tjá viðhorf þeirra manna sem vona að þetta geti nú ekki verið svona slæmt, þetta hljóti að vera eitthvað orðum aukið, þessir vísindamenn séu svo öfgafullir - þetta verði kannski bara allt farið þegar þeir vakni. Eða hvers er að vænta af ráðherra sem hefur það helst til umhverfismála að leggja að hún sé frá Siglufirði? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun Slökkvistarfið Eiríkur Hjálmarsson Skoðun Fæðuöryggi þjóðar, sláum í klárinn, togum í tauminn Helgi Eyleifur Þorvaldsson Skoðun Hvatning til heilbrigðisráðherra Halla Þorvaldsdóttir Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Verðmætasköpun með hugvitið að vopni Ingvar Hjálmarsson Skoðun Agaleysi í íslenskum skólum - Kennarar þurfa valdið til baka Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir Skoðun
Einu sinni á kjallaraárum okkar hjóna vakti konan mín mig um miðja nótt og færði mér þau tíðindi að hún heyrði ekki betur en að frammi í eldhúsi geisuðu harðvítug átök milli kattanna og skrækjandi rottu. Ég reis upp við dogg, hugsaði mitt ráð og kvað loks upp úrskurðinn: við skulum fara aftur að sofa, kannski verður rottan farin þegar við vöknum næst. Þetta lýsir þeirri óbilandi bjartsýni sem löngum hefur einkennt mig en líka almennu karlmannlegu hugleysi – og tregðu til að grípa til hvimleiðra en nauðsynlegra ráðstafana. Helgi Hálfdanarson hefur búið til gott orð um svona viðbrögð andspænis vá, að láta reka á reiðanum þótt allt stefni í óefni: hann kallaði slíkt fólk reiðareksmenn. Maður verður stundum var við þetta hugarástand andspænis mikilvægasta úrlausnarefni okkar daga: umhverfismálum – þessa undarlegu tregðu jafnvel þótt ekki sé um neinar fórnir að ræða heldur bara aukin þægindi, á borð við það að skipta úr allt of stórum fjallajeppa og í alvöru borgarbíl. Menn treysta sér ekki til að horfast í augu við voðann og bregðast við honum á öllum stigum, einstaklingsbundnum og á þjóðarvísu. Klerkastjórnin í Washington hefur að vísu sérstöðu, sér enga sérstaka þörf á því að bjarga jörðinni því dómsdagur sé hvort sem er á næsta leiti og Jahve búinn að útbúa VIP-kortin handa þeim útvöldu – en við hin sem ekki höfum neinar spurnir af þessum ráðagerðum almættisins en lítum á Guð sem táknmynd lífsaflsins, kjósum frekar lífið – og erum raunverulega "pro-life" – við hljótum að krefjast þess af okkar stjórnvöldum að þau geri allt það sem í þeirra valdi stendur til að stöðva nú þegar hina heimskulegu og ónauðsynlegu losun gróðurhúsalofttegunda. Málflutningi reiðareksmanna má lýsa svona: í fyrsta lagi er hitastig ekkert að hækka; í öðru lagi er það gott að hitastig sé að hækka vegna þess að þá opnast siglingaleiðir fyrir okkur og veðrið batnar; í þriðja lagi er of seint að gera nokkuð við því að hitastig sé að hækka, of dýrt og nær að flytja fólk burt af hættusvæðum. Núverandi umhverfisráðherra, Sigríður Anna Þórðardóttir, hefur til þessa verið atkvæðalítil í starfi. Aðspurð um áhuga sinn á umhverfismálum sagðist hún til dæmis vera frá Siglufirði og hafa yndi af því að fara í berjamó. Það vakti líka athygli og nokkra undrun þegar hún valdi sér á sínum tíma til aðstoðar Harald Johannesen sem hafði verið viðloðandi hinn svokallaða Vef-þjóðvilja - netsíðu ungra manna sem halda mjög fram þeirri hugsjón að hlýnun loftslags af mannavöldum sé með öllu ósannað mál. Á dögunum fékk hinn nýbakaði ráðherra loks tækifæri til að láta að sér kveða á alþjóðavísu þegar hún ávarpaði ráðstefnu vísindamanna í tilefni af útkomu skýrslu um hlýnun andrúmslofts á norðurslóðum. Í skýrslunni er ekki einungis staðhæft að rannsóknir hafi leitt í ljós að þessi hlýnun sé óyggjandi heldur og að hún sé miklu hraðari en vísindamenn óttuðust áður. Fyrrverandi umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, vakti athygli á þessari sömu ráðstefnu fyrir skörulegan málflutning og góða þekkingu á efninu sem hún hafði sýnilega kynnt sér, enda er hún ekki lengur ráðherra og þarf ekki lengur að framfylgja stóriðjustefnu Halldórs Ásgrímssonar. Í setningarræðu sinni var Sigríður Anna hins vegar stödd í hálfgerðum berjamó á Siglufirði. Í ræðunni, sem virtist fremur ætluð til að falla ráðamönnum Bandaríkjanna í geð en að vera í einhverju samhengi við sjálfa ráðstefnuna, sagði íslenski ráðherrann – þvert á niðurstöðu skýrslunnar – að enn væri miklum vafa undirorpið hversu mikil áhrif menn hafi á loftslag og hversu mikið loftslag sé að breytast. Eru áherslur ríkisstjórnarinnar að breytast í umhverfismálum? Sjálfstæðismenn virðast miða alla sína stefnu á alþjóðavísu við að halda uppi atvinnustigi á Suðurnesjum – ber að skoða ræðu umhverfisráðherra í því ljósi, að menn séu að stilla sér upp við hlið Bandaríkjamanna í því að hundsa Kyoto-sáttmálann? Eða er það hlutskipti ráðherrans að tjá viðhorf þeirra manna sem vona að þetta geti nú ekki verið svona slæmt, þetta hljóti að vera eitthvað orðum aukið, þessir vísindamenn séu svo öfgafullir - þetta verði kannski bara allt farið þegar þeir vakni. Eða hvers er að vænta af ráðherra sem hefur það helst til umhverfismála að leggja að hún sé frá Siglufirði?
Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun
Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun